• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Oct

Svívirðilegt okur ríkisins á stimpilgjöldum

Svívirðilegt okurSvívirðilegt okurÍ dag hefur formaður félagsins verið að skoða hvernig stimpilgjald af skuldabréfum og kaupsamningum koma út fyrir íslenska neytendur þegar keyptar eru fasteignir.

Það er óhætt að segja að þegar þetta er skoðað þá sést að hér er um svívirðilegan skatt að ræða á íslenska neytendur. Formaður hefur lagt upp tvö dæmi til að sýna fram á hversu gríðarlegar upphæðir hér getur verið um að ræða.

Fyrra dæmið er íbúð í fjölbýlishúsi 107 fm að stærð. Kaupverð er kr. 22.500.000. Ef tekið er 80% lán að upphæð kr. 18.000.000 þá þarf að greiða af þeirri upphæð 1,5% í stimpilgjald sem gerir kr. 270.000. Að auki þarf að greiða 0,4% stimpilgjald af fasteignamati sem er í þessu tilfelli kr. 16.390.000. Stimpilgjald af fasteignamati er því kr. 65.560 í þessu tilfelli. Samtals þarf kaupandi þessarar eignar að greiða til ríkisins kr. 335.560 í stimpilgjöld.

Í seinna dæminu er um einbýlishús að ræða. Kaupverðið er kr. 31.500.000. Ef tekið er 80% lán að upphæð kr. 25.200.000 þarf að greiða 378.000 í stimpilgjöld. Einnig þarf að greiða 0,4% stimpilgjald af fasteignamati sem í þessu tilfelli er kr. 24.570.000 sem gerir 98.280. Samtals þarf kaupandi þessarar eignar að greiða í stimpilgjöld til ríkisins kr. 476.280.

Formaður kynnti sér í dag hversu langan tíma það tekur fyrir starfsmenn sýslumanna að afgreiða skuldabréf og kaupsamninga og samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum sem formaður aflaði sér þá tekur ferlið allt frá 15 mínútur upp í eina klukkustund í vinnslu.

Því spyr formaður, hvernig má það vera að hægt er að innheimta stimpilgjöld upp á tæpa hálfa milljón, eins og fram kemur í seinna dæminu, þegar það tekur einungis 15 mínútur fyrir starfsmenn sýslumanna að ganga frá stimpilgjöldum tengdum skuldabréfum og kaupsamningum. Fróðlegt væri að ríkisvaldið útskýrði á hvaða forsendu þessi geigvænlegu stimpilgjöld eru til komin.

Eins og áður sagði er hér um svívirðilegt okur að ræða af hálfu ríkisins. Þess vegna mun Verkalýðsfélag Akraness leggja það til í komandi kjarasamningum að ríkisvaldið lækki áðurnefnt stimpilgjald til samræmis við það vinnuframlag sem starfsmenn sýslumanna þurfa að inna af hendi vegna skjalavinnslu tengdri stimpilgjöldum. Það væri alls ekki óeðlilegt að föst raunhæf upphæð væri greidd í stimpilgjöld, sem myndi dekka áðurnefnt vinnuframlag starfsmanna sýslumanna.

Hér er um mikið hagsmunamál fyrir ungt verkafólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign, og ekki síður fyrir aðra landsmenn. Að það skuli þurfa að taka verkamann á lágmarkslaunum tæpa 4 mánuði að vinna sér inn fyrir stimpilgjaldinu af eign sem kostar 31 milljón er með öllu óásættanlegt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image