• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Oct

Ekki má hvika frá þeirri kröfu að lágmarkslaun verði ekki undir 170.000 kr.

Bæta þarf kjör fiskvinnslufólks verulegaBæta þarf kjör fiskvinnslufólks verulegaFormaður Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft fjallað um það hér á heimasíðunni að höfuðkrafan í komandi kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði eigi að vera sú að lágmarkslaun verði ekki undir 170.000 kr. í lok samningstímans.

Að undanförnu hafa fleiri stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands tekið undir þessa kröfu félagsins.  Nú síðast var það Verkalýðsfélag Húsavíkur sem það gerði.  Það er ekki spurnig að það er að nást nokkuð víðtæk samstaða innan SGS um stórhækkun lágmarkslauna í komandi kjarasamningum.  Lágmarkslaun upp á 125.000 kr. er íslensku samfélagi til skammar og við forystumenn í SGS getum á engan hátt skotið okkur undan ábyrgð okkar á því að lágmarkslaun eru jafn lág og raun ber vitni.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var spurður á mbl.is í dag útí kröfugerðina hjá Verkalýðsfélagi Húsavíkur um að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. uppí 180.000 á samningstímanum.  Framkvæmdastjórinn sagðist ekki leggja djúpstæða merkingu í tölurnar enda liggi engin vinna að baki þeim.  Einnig sagði framkvæmdastjórinn að 180.000 kr. lágmarkslaun byggi ekki á neinum rannsóknum á launagreiðslum eða launaþróun eða neinu slíku.

Þessi orð Vilhjálms Egilssonar eiga ekki við þá kröfu sem formaður VLFA hefur haldið á lofti um að lágmarkslaun verði 170.000 kr.

Krafan um að lágmarkslaun fari í 170.000 kr. er byggð á launakönnun sem Starfsgreinasamband Íslands gerði á meðal sinna félagsmanna í september í fyrra.  En í þeirri könnun kom fram að meðaldagvinnulaun hjá verkafólki séu rétt rúmlega 170.000 kr á mánuði. 

Í síðustu viku kynntu Flóabandalags félögin nýja launakönnun sem náði til félagsmanna á stór Reykjavíkursvæðinu.  Í þeirri könnun kom fram að meðaldagvinnulaun á stór Reykjarvíkursvæðinu eruí kringum 200.000 kr.  Það liggur fyrir að mun meira launaskrið hefur verið á Reykjavíkursvæðinu en á landsbyggðinni sökum þeirrar miklu þenslu sem hefur verið á stór Reykjavíkursvæðinu á liðnum árum.

Því miður hefur verkafólk á landsbyggðinni ekki notið jafn mikils launaskriðs eins og gerst hefur á Reykjavíkursvæðinu á liðnum árum.  Það er alvitað að þó nokkuð stór hópur verkafólks á landsbyggðinni vinnur eftir þeim lágmarkstöxtum sem í gildi eru á hverjum tíma fyrir sig.  Vissulega þekkist það einnig á Reykjavíkursvæðinu að verkafólk vinni eftir berstrípuðum lágmarkstöxtum, samt sem áður er mun meira um það á landsbyggðinni.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að það á ekki að hvika frá þeirri sjálfsögðu kröfu um að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 170.000 kr. á samningstímanum.  En hann mun að sjálfsögðu styðja kröfu Verkalýðsfélags Húsavíkur um að lágmarkslaun verði 180.000 kr. í lok samningstímabilsins.  Til að þessar kröfur verði að veruleika þarf víðtæka samstöðu innan SGS, ef að sú samstaða verður til staðar er mörgu hægt að ná fram.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image