• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Sep

Vinnustaðafundur í HB-Granda Akranesi

Formaður félagsins fór í vinnustaðaheimsókn til HB-Granda í gær. Átti hann þar samtal við nokkra starfsmenn og fór ekki á milli mála að þeir voru afar svekktir yfir að ekki skyldi hafa orðið af áformum fyrirtækisins um flutning allrar landvinnslu upp á Akranes.

Starfsmenn voru nokkuð uggandi um sinn hag í ljósi þeirra staðreynda að aflaheimildir í þorski hafa verið skertar um 30%. Á undanförnum tveimur árum hefur meginuppstaða hráefnis í frystihúsinu á Akranesi verið þorskur. Að undanförnu hefur verið skortur á hráefni en skv. upplýsingum sem formaður hefur fengið þá er meginástæðan fyrir því aflabrestur í ufsa.

Varðandi mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar þá er klárt mál að þær ná ekki til þess fiskvinnslufólks hér á Akranesi sem að öllum líkindum mun verða fyrir tekjutapi sökum þeirrar skerðingar sem tilkynntar hafa verið á þorski. Einnig er ekki að sjá að mætt verði þeirri skerðingu sem sjómenn verða fyrir og nægir að nefna í því samhengi að skipverjarnir á Sturlaugi H. Böðvarssyni hafa á síðastliðnum tveimur árum sótt nær eingöngu í þorsk. Þannig er að allt útlit er á því að tekjur þeirra muni verða mun minni en síðastliðin tvö ár.

Samband sveitarfélaga á Vesturlandi reiknaði út þau áhrif sem aflasamdráttur í þorski upp á 30% hefði á byggðir á Vesturlandi og kom fram að þessi samdráttur mun kosta Akranes um 1,5 milljarð króna.

Formaður kallar eftir því við ríkisstjórn Íslands að þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið muni að einhverju leyti beinast til sjómanna og fiskvinnslufólks hér á Akranesi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image