• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Sep

Störfum í fiskvinnslu að blæða út

Ógæfan dynur nú yfir fiskvinnslufólk vítt og breitt um landið en þegar þetta er ritað er búið að segja upp hátt í 100 manns sem starfa í fiskvinnslu í Þorlákshöfn og á Eskifirði.  Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ segir þessar uppsagnir ekki koma sér á óvart og telur hann að fleiri uppsagnir fylgi í kjölfarið.

Þegar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar nýverið  kom fram hjá ríkisstjórninni að ólíklegt væri að til fjöldaatvinnuleysis kæmi neins staðar á næstu mánuðum, hvorki hjá sjómönnum né landverkafólki.  Uppsagnirnar í dag sýna svo ekki verður um villst að ríkisstjórn Íslands skjátlaðist allverulega í þeim efnum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr, ætlar ríkisstjórn Íslands ekkert að koma þessu fólki til hjálpar? Það er a.m.k. ekki að sjá á þeim mótvægisaðgerðum sem kynntar hafa verið og á það bæði við um fiskvinnslufólk og sjómenn.  Niðurskurður á aflaheimildum í þorski bitnar einmitt hvað harðast á fiskvinnslufólki og sjómönnum eins og dæmin eru svo sannarlega farin að sýna.

Það liggur orðið fyrir að störfum í fiskvinnslu er að blæða út en þessum störfum hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum og sem dæmi þá fækkaði störfum í fiskvinnslu um 500 á milli árana 2005 og 2006 samkvæmt gögnum frá Starfsgreinasambandi Íslands. 

Formaður VLFA krefst þess að ríkisstjórn Íslands opni augun fyrir þeirri skelfilegu stöðu sem komin er upp hjá sjómönnum og fiskvinnslufólki í kjölfar niðurskurðar á aflaheimildum í þorski.

Það er mat formanns félagsins að það fiskveiðistjórnunarkerfi og framsalskerfi sem hér hefur verið við lýði síðastliðin 23 ár sé meginorsök þeirra vandræða sem fiskvinnslufólk og sjómenn standa frammi fyrir í dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image