• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Sep

29. september 1937 - 70 ára minning

Ásbjörn AK 90 og Sveinn Guðmundsson AK 70Ásbjörn AK 90 og Sveinn Guðmundsson AK 70Í dag eru liðin 70 ár frá minnisverðum degi í sögu Skagamanna allra og ekki síður í sögu Verkalýðsfélags Akraness.

Árið 1937 var félagið viðurkennt sem lögformlegur samningsaðili fyrir verkafólk á Akranesi eftir hatramma baráttu. Það haust voru samningar félagsins lausir og lagði félagið fram kröfur um 40% hækkun í dag-, eftir-, og helgarvinnu. Með þessum kauphækkunum ætlaði félagið að ná sama kaupi og tíðkaðist í Reykjavík. Samningaviðræður báru engan árangur og skall verkfall á í september. Liðu svo dagarnir að ekkert gerðist í deilunni utan það að atvinnurekendur buðu heila 5 aura hækkun á tímakaup í dagvinnu!

Þann 29. september dró til tíðinda en þá spurðist út að Haraldur Böðvarsson hefði sótt um leyfi til félagsins til að fá að skipa beitu á land en þeirri ósk hans var hafnað. Hafði Haraldur þá orð á því að ætla að skipa henni sjálfur á land með skipstjórum sínum. Mun Sveinbjörn Oddsson, þáverandi formaður félagsins því hafa fylgst vel með ferðum Haraldar ef hann skyldi taka upp á því að gera alvöru úr orðum sínum. Um hádegisbil þennan sama dag lagðist vélbáturinn Árni Árnason frá Keflavík upp að hafnargarðinum í Krossvík en hann var þá aðeins smá spotti miðað við það sem hann nú er. Skömmu síðar komu tveir rauðir vörubílar, litur Haraldarbíla, akandi niður hafnargarðinn með nokkra menn á pallinum og gerðu þeir sig líklega til að hefja uppskipun á beitunni.

Verkfallsmenn, með Sveinbjörn í fararbroddi, fjölmenntu nú á hafnargarðinn ásamt stórum hópi unglinga sem ætluðu sér ekki að missa af því ef beituuppskipun Haraldar Böðvarssonar yrði stöðvuð með valdi. Veður hafði verið þokkalegt um morguninn, vestanátt eða útsunnan með tilheyrandi brimi á stönd og skerjum og gekk á með nokkrum skúrahryðjum yfir síaukinn mannfjöldann á bryggjunni. Þegar Sveinbjörn og menn hans komu að Haraldi, þar sem hann stóð á vörubílspallinum og tók á móti frosnum beitupönnum, urðu nokkur orðaskipti á milli fornvinanna Sveinbjörns og Haraldar og síðan tóku verkfallsmenn að kasta beitupökkunum í sjóinn að fyrirskipan Sveinbjörns.

Þó nokkur átök áttu sér stað þarna við bílana þegar skyndilega virtist sem máttarvöldin hefðu gripið í taumanna og fengið þessum tveimur andstæðu fylkingum annað að hugsa um en yfirstandandi deilur.

Brotsjór reið fyir hafnargarðinn og sópaði öllu sem þar var, lifandi og dauðu í burtu. Þegar bryggjan varð aftur sjólaus var þar ekkert að sjá, enginn bíll, enginn maður, ekki neitt. Betur fór þó en á horfðist. Flestir höfðu fallið ofan í bátinn, sumir héngu í einu og öðru á bryggjubrúninni og meðal þeirra báðir Haraldur og Sveinbjörn og hafði hvorugan sakað. Margir féllu í sjóinn og komust af eigin rammleik eða með hjálp annarra upp í bát eða bryggju.

Þrjú ungmenni höfðu borist lengst frá bryggjunni. Þórður Jónsson frá Reynisstað, 17 ára gamall, og bræðurnir Ólafur og Sigurður Elíassynir, Suðurgötu 19, sem voru 11-12 ára gamlir. Ólafur bjargaðist naumlega um borð í bát sem komið var á flot en þrátt fyrir björgunartilraunir vaskra sundmanna drukknuðu hinir drengirnir báðir. Lík Þórðar fannst fljótlega þá um daginn en þrátt fyrir ítarlega leit með fjörum og klettum fannst lík Sigurðar litla aldrei.

Það var dimmt yfir Akranesi á þessum degi fyrir 70 árum síðan og féllu þung orð á báða bóga um tildrög slyssins. Allir skildu þó að engum var um að kenna þótt aldan brotnaði í þetta sinn á viðkvæmu augnabliki í vinnudeilu.

Þess má geta að þann 10. október barst gott tilboð frá atvinnurekendum þar sem boðin var 27-30% kauphækkun og um það náðust samningar. Eftir þá hækkun varð kaup verkamanna á Akranesi kr. 1,27 á tímann og kaup verkakvenna 1,05 á tímann. Var þá þessu eftirminnilega verkfalli lokið en það var mál manna að eftir það hafi orðið betri og skilningsríkari samskipti milli Verkalýðsfélags Akraness og atvinnurekenda á staðnum.

 

Hægt er að lesa meira um þennan atburð í 50 ára afmælisriti Verkalýðsfélags Akraness sem kom út í október 1974.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image