• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Aug

Víðtæk samstaða um hækkun lágmarkslauna

Svo virðist vera að nokkuð víðtæk samstaða sé að nást innan Starfsgreinasambands Íslands um að aðalkrafan í komandi kjarasamningum verði að færa lágmarkstaxtana í námunda við þau markaðslaun sem almennt er verið að greiða á vinnumarkaðnum.

Verkalýðsfélag Akraness nefndi það fyrir fáeinum mánuðum að aðalkrafan í komandi kjarasamningum ætti að vera að færa lágmarkslaunin í átt að markaðslaunum og til að það tækist þyrftu lágmarkstaxtarnir að hækka um 30% til 40%.

Nú er afar ánægjulegt að sjá að nokkuð víðtæk samstaða virðist vera að skapast innan SGS um að hækka lágmarkslaunin allverulega í næstu kjarasamningum. Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnafirði sendi t.d. frá sér ályktun um 30% hækkun á lágmarkstöxtum og formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur sagði í fréttum í gær að krafan í næstu kjarasamningum ætti að vera að lágmarkslaun hækkuðu úr 125 þúsund í 160.000 til 170.000.  Einnig var haft eftir formanni SGS í fréttum ekki alls fyrir löngu að hækka þyrfti lágmarkslaunin allverulega í næstu kjarasamningum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er ekki í nokkrum vafa um að með víðtækri samstöðu í næstu kjarasamningum innan Starfsgreinasambandsins verði hægt að lyfta þessum skammarlega lágu lágmarkslaunum í átt að markaðlaununum.  Einfaldlega vegna þess að samstaða er hornsteinn að árangri í komandi kjarasamningum.

Formaður félagsins hefur áður sagt að lágmarkslaunin séu íslensku samfélagi til skammar og við forystumenn í stéttarfélögum innan SGS getum ekki skotið okkur undan þeirri ábyrgð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image