• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Aug

Vinnumálastofnun hefur aldrei beitt dagsektum

Það kom formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að grunur væri á að erlendu starfsmennirnir sem lentu í rútuslysinu í Fljótsdal á sunnudaginn sl. hefðu ekki allir tilskilin leyfi til að starfa hér á landi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að töluverð brotalöm sé á því að fyrirtæki skrái erlenda starfsmenn eins og lög kveða á um.

Verkalýðsfélag Akraness hefur haldið úti mjög öflugu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Er það gert til að tryggja að kaup og kjör séu eftir íslenskum kjarasamningum og einnig til að tryggja að starfsmenn séu skráðir í samræmi við lög og reglugerðir.

Á síðustu þremur árum hefur VLFA margoft þurft að hafa afskipti af fyrirtækjum sem ekki hafa farið eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Sem dæmi þá lagði félagið fram kæru til lögreglunnar í júní á hendur fyrirtæki að nafni Formaco.  Kæran var lögð fram vegna grunsemda um að erlendir starfsmenn sem voru á vegum fyrirtækisins væru ekki skráðir eins og lög kveða skýrt á um.

Við rannsókn málsins kom fram að grunsemdir Verkalýðsfélags Akraness voru á rökum reistar en 27 starfsmenn frá Litháen voru að störfum hjá fyrirtækinu.  Starfsmennirnir voru ekki með íslenskar kennitölur, dvalarleyfi né skráðir hjá Vinnumálastofnun eins og skýrt er kveðið á um í lögum þó svo að sumir þeirra væru búnir að starfa hér á landi í rétt tæpt ár.

Mjög líklegt er að Litháarnir hafi ekki verið sjúkratryggðir hér á landi þar sem þeir voru ekki með íslenskar kennitölur.

Lögin eru skýr, vinnuveitandi hefur 10 daga til að tilkynna og skila inn ráðningarsamningi þegar nýr erlendur starfsmaður hefur störf hjá fyrirtækinu.  Lögin kveða einnig á um að Vinnumálastofnun hafi heimild til að beita dagsektum ef fyrirtæki trassa að skrá erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunar að 10 dögum liðnum.  Sektin getur numið allt að 50.000 á dag.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur aflað sér þá hefur Vinnumálastofnun aldrei beitt dagsektum frá því lögin tóku gildi og verður það að teljast afar athygilsvert í ljósi þess að skráningum samkvæmt nýju lögunum hefur verið verulega ábótavant . 

Mál Formaco er ennþá hjá lögreglu og formaður VLFA trúir ekki öðru en að ákært verði í málinu því öll gögn sýna að fyrirtækið hefur brotið lög bæði hvað varðar skráningu sem og skil á opinberum gjöldum af erlendu starfsmönnunum.

Það er ótrúlegt að það þurfi óhapp eins og áðurnefnt rútuslys til að hinir ýmsu aðilar taki við sér.  Eins og áður sagði þá hefur VLFA margoft bent á þetta vandamál og telur formaður að hundruðir ef ekki þúsundir erlendra starfsmanna séu að störfum hér á landi án tilskilinna leyfa. 

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag að greinilegt væri að brotalöm væri í eftirliti með erlendu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði.  Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að eftirliti væri ábótavant og félagsmálaráðherra er það fullkunngt, enda hefur verið margoft vitnað í umsagnir Verkalýðsfélags Akraness á Alþingi þegar málefni erlends vinnuafls hefur verið til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga.  Félagsmálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn frá VLFA vegna nýrra laga um erlent vinnuafl í þeirri umsögn benti félagið á að auka þyrfti heimildir stéttarfélaga til að hafa eftirlit með íslenskum vinnumarkaði.  Því miður hlustaði Alþingi ekki á þau varnaðarorð sem heyrðust víða frá verkalýðshreyfingunni um að auka þyrfti heimildir stéttarfélaga til að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem væru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image