• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Jun

Formaco með 28 erlenda starfsmenn án kennitalna og dvalarleyfis

Eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá kærði Verkalýðsfélag Akraness fyrirtækið Formaco til lögreglunnar á Akranesi fyrir nokkrum vikum síðan.

Kæran var lögð fram vegna sterkra grunsemda um að Litháar sem starfa hjá fyrirtækinu væru ekki skráðir eins og lög og reglugerðir kveða skýrt á um. 

Lögreglan á Akranesi sem fer með rannsókn þessa máls hefur t.d. fundað með Vinnumálastofnun og einnig hefur hún leitað upplýsinga hjá Útlendingastofnun varðandi skráningu Litháanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Akrnaesi þá hefur hún fengið hin ýmsu gögn frá Vinnumálastofnun sem hafa verið til skoðunar að undaförnu.  Formaður félagsins veit fyrir víst að þau gögn sem lögreglan hefur undir höndum staðfestir þær grunsemdir sem VLFA hefur haft í þessu máli.  Lögreglan á Akranesi hefur hins vegar tekið ákvörðun um að vísa málinu til lögreglunnar í Reykjavík þar sem fyrirtækið Formaco hefur lögheimili þar. 

Það liggur fyrir samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem VLFA hefur aflað sér að undanförnu að sterkar líkur eru á að lög hafi verið brotin hvað varðar skráningar og skattaskil á Litháísku starfsmönnunum.

Formaco hefur haft 28 erlenda starfsmenn að störfum á síðastliðnum 12 mánuðum, flesta frá Litháen.  Samkvæmt upplýsingum og gögnum sem fyrir liggja í málinu þá er enginn þeirra með kennitölu, lögheimili eða dvalarleyfi hér á landi.

Að auki hafa ekki verið borguð opinber gjöld af Liháunum, eftir þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér, hvorki skattar, félagsgjöld né lífeyrissjóðsgjöld.

Formaður VLFA skorar á ríkisskattstjóra að taka mál eins og þetta af festu og einurð einfaldlega vegna þess að það liggur fyrir að Formaco bar að greiða opinber gjöld af Litháunum alla vega þeim sem starfað hafa hér í meira en 181 dag. 

Formaco var einungis búið að tilkynna til Vinnumálastofnunar 6 af þeim 28 sem starfa hjá fyrirtækinu en skýrt er kveðið á um í lögum að skrá skuli erlenda starfsmenn innan 10 daga frá ráðningu þeirra.  Ráðningarsamningar sem Formaco lét fylgja með þessum 6 starfsmönnum voru því miður meingallaðir og til dæmis var ekki getið um yfirvinnukaup í ráðningarsamningum, einungis dagvinnukaup sem hljóðaði uppá aðeins 726 kr. á tímann.

Formaður vill einnig minna á stjórnarsáttmálann sem Ingibjörg Sólrún og Geir undirrituðu en þar kemur m.a. fram að ríkistjórnin ætli að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði. 

Það mat formanns að hér sé um klárt undirboð á íslenskum vinnumarkaði að ræða þar sem Formaco reynir að komast hjá því að greiða opinber gjöld og klárlega skekkir það samkeppnistöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum og einnig hefur VLFA enga hugmynd hvort verið sé að greiða Litháunum laun eftir íslenskum kjarasamningum, enda fá þeir laun sín ekki greidd hér á landi.  Félagsleg undirboð eins og þetta verður að stöðva og það með öllum tiltækum ráðum.

Formaður félagsins hefur ákveðið að óska eftir fundi með félagsmálaráðherra þar sem mál tengd félagslegum undirboðum verða til umræðu. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image