• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jun

Fundað með sjávarútvegsráðherra

Einar K GuðfinnssonFormenn Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Húsavíkur munu funda með Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra í dag.  Þeir félagar Vilhjálmur og Aðalsteinn gegna formennsku í Matvælasviði Starfsgreinasambands Íslands.

Tilefni fundarins er væntanlegur niðurskurður á aflaheimildum á þorski en eins og fram hefur komið í fréttum þá leggur Hafró til að niðurskurður verði 30%.

Ljóst er að ef tillögur Hafró verða að veruleika þá munu þær hafa mjög víðtæk áhrif á laun bæði hjá fiskvinnslufólki og ekki síður hjá sjómönnum.

Heyrst hefur að íslensk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að fella úr gildi 10% álag sem greitt hefur verið vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandsmiðum. Fréttavefurinn Fishupdate.com greinir frá því í gær að mikil gleði sé nú meðal þeirra sem starfa í sjávarútvegi í Hull og Grimsby vegna þessa samnings við íslensk stjórnvöld. Menn sjá fram á betri tíma vegna bættra möguleika á að keppa um íslenskan fisk. Fram kemur að hagsmunaaðilar í Bretlandi hafi þrýst á um þessa breytingu ásamt íslenskum fiskútflytjendum og eigendum íslenskra togara.

Þessi ákvörðun mun ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks svo mikið er víst því allt útlit er á því að við afnám á umræddu 10% álagi á gámafiski muni útflutningur á fiski aukast og mun það bætast ofaná þann niðurskurð sem fyrirhugaður er 1. september.  Þessi atriði verða klárlega til umræðu á fundinum sem og tillögur Hafró almennt, en formaður VLFA telur að menn verði að horfast í augu við það að tilgangurinn með kvótakerfinu sem var að byggja upp þorskstofninn hefur gersamlega mistekist.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image