• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jun

Aukinn útflutningur á gámafiski mun koma hart niður á fiskvinnslufólki

Í dag funduðu formaður og varaformaður Matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands með Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra vegna fyrirhugaðrar skerðingar á aflaheimildum fyrir komandi fiskveiðiár.  Formaður sviðsins er Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og varaformaður er Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Fundur með sjávarútvegsráðherra stóð í rúman einn og hálfan tíma og var hann mjög góður og gagnlegur.  Ráðherra fór yfir þær tillögur sem Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til fyrir komandi fiskveiðiár, en í tillögum frá Hafró er lagt til þorskvótinn verði skertur um allt að 30%.  

Fram kom í máli ráðherra að ekki væri búið að taka neina ákvörðun um skerðingu á komandi fiskveiðiári. Ráðherra taldi þó fullvíst að um skerðingu verði að ræða en hversu mikil hún verður liggur ekki fyrir þessa stundina.

Fram kom í máli Vilhjálms og Aðalsteins að þeir hafa verulegar áhyggjur af afkomu fiskvinnslufólks ef tillögur Hafró verða að veruleika.  Fram kom í máli þeirra félaga að þeir telja að stórauka þurfi rannsóknir á nytjastofnum hafsins og einnig telja þeir að auka þurfi eftirlit fiskistofu með fiskveiðibrotum t.d. löndunum framhjá vigt.

Þeir félagar gagnrýndu þá ákvörðun ráðherra harðlega að afnema 10% álag á gámafiski og telja þeir að þessi ákvörðun muni leiða til mun meiri útflutnings á fiski í gámum en nú er.

Það er alls ekki heppilegt að íslensk stjórnvöld skuli hafa tekið ákvörðun um að afnema þetta álag á sama tíma og fyrirhugað er að skerða aflaheimildir um allt að 30%.

Á árinu 2002 nam útflutningur á gámafiski 21 þúsund tonnum og á árinu 2006 var útflutningur á gámafiski kominn uppí 56 þúsund tonn og algerlega ljóst að útflutningur muni aukast enn frekar eftir afnám 10% álagsins.  Þessi ákvörðun mun bitna illilega á íslensku fiskvinnslufólki og líkur eru á að töluverður fjöldi fiskvinnslufólks muni missa vinnuna sökum þessa.

Það verður að vera krafa um að dregið verði úr útflutningi á gámafiski til minnka það áfall sem fiskvinnslufólk verður fyrir ef verulegur samdráttur á veiðiheimildum verður á komandi fiskveiðiári. 

Árið 1984 þegar kvótakerfið var sett á þá mátti veiða um 260 þúsund tonn af þorski. Nú rúmum 20 árum síðar kemur tillaga frá Hafró sem felur í sér heimild til veiða á 130 þúsund tonnum af þorski.  Á þessu sést að tilgangur kvótakerfisins, sem var að byggja upp þorskstofninn, hefur algerlega mistekist að mati formanns VLFA

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image