• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jun

Uppbygging á Grundartanga hefur haft mjög jákvæð áhrif á Akranesi

Ekkert lát virðist vera á fjölgun íbúa á Akranesi.  Það sem af er þessu ári hefur Akurnesingum fjölgað um 162 íbúa, sem er fjölgun um 2,72% og hafa íbúar á Akranesi ekki verið fleiri frá upphafi og eru nú 6117 talsins samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum.

Félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness hefur einnig fjölgað gríðarlega að undanförnu og eru félagsmenn nú orðnir 2.254 eða sem nemur 28,7% af öllum bæjarbúum.  Rétt er að geta þess að VLFA á þó nokkra félagsmenn sem búa fyrir utan Akranes.

Þessi mikla fjölgun hér á Akranesi á rætur að rekja til þeirrar miklu og jákvæðu uppbyggingar sem átt hefur sér stað á Grundartanga á undaförnum árum.  Þessi uppbygging á Grundartanga hefur skapað mörg hundruð störf.  Sem dæmi þá eru 356 félagsmenn VLFA að störfum hjá Norðuráli, rétt tæplega 100 hjá Íslenska járnblendinu, hjá Klafa, sem sér um upp- og útskipanir, eru 40 manns og hjá Fangi, sem sér um eldhúsið og ræstingar hjá IJ, eru um 20 manns.

Á þessu sést hversu mikilvæg stóriðjan á Grundartanga er okkur Skagamönnum og sérstaklega í ljósi þess að samdráttur í tengslum við fiskvinnslu hér á Akranesi hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum. 

Hér á heimsíðunni hefur áður verið minnst á að störfum hjá HB-Granda hefur fækkað mjög mikið síðustu misseri og nemur sú fækkun tugum starfa.  Og útlitið er ekki gott ef marka má tillögur sem Hafró hefur lagt fram.

Smábátaútgerð hefur nánast horfið á liðnum árum og hafa yfir 1.500 þorsksígildistonn verið seld héðan á síðustu árum. 

Eins og áður sagði þá væri illa komið fyrir okkur Skagamönnum og nærsveitungum ef hinni miklu uppbyggingu á Grundartanga hefði ekki notið við. 

Mikil gróska er nú í íbúðabyggingum og segja má að ásýnd bæjarins breytist dag frá degi.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa eru nú í byggingu á Akranesi hátt á þriðja hundruð íbúða.  Einnig er í gangi talsverð uppbygging atvinnuhúsnæðis.

Það er í raun og veru ekkert skrítið þótt fólk streymi inní bæinn. Öll aðstaða hér á Akranesi er til mikillar fyrirmyndar og nánast alveg sama hvert litið er í þeim efnum.  Það nægir að nefna aðgengi að mjög góðri heilsugæslu, frábærum skólum og ekki má gleyma einni af glæsilegustu íþróttaaðstöðu sem fyrirfinnst á landinu.  Eða með öðrum orðum það er gott að búa á Akranesi. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image