• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Erlendir byggingarverkamenn látnir vinna á 1. maí hátíðar- og baráttudegi verkafólks Þessir erlendu starfamenn unnu á sjálfan 1. maí
03
May

Erlendir byggingarverkamenn látnir vinna á 1. maí hátíðar- og baráttudegi verkafólks

Það var dapurleg sjón að sjá að í það minnsta tvö byggingarfyrirtæki hér á Akranesi sáu sér ekki fært að gefa sínum erlendu starfsmönnum frí og það á sjálfan 1. maí, baráttudegi verkalýðsins.

Að sjálfsögðu koma upp tilfelli þar sem verkafólk verður að vinna á þessum hátíðardegi verkamanna og nægir þar að nefna starfsmenn sem starfa í öllum stóriðjunum. Við því er að sjálfsögðu ekkert að gera.

Hins vegar er það með öllu óþolandi að sjá að til eru atvinnurekendur og þá sér í lagi í byggingariðnaði sem víla ekki fyrir sér að láta sína erlendu starfsmenn vinna á þessum hátíðar- og baráttudegi verkamanna.  Með þessum gjörðum sínum sýna þessir sömu atvinnurekendur íslensku verkafólki mikla lítilsvirðingu.

Á baráttufundi á Akranesi 1. maí sl. kom fram í ræðu Halldórs Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ að til væru atvinnurekendur sem misnotuðu erlent vinnuafl illilega og væru um leið að grafa undan íslenskum vinnumarkaði.  Þessi þvingun atvinnurekenda, að láta erlenda starfsmenn vinna á þessum baráttudegi verkamanna, er einn liður í því að gjaldfella íslenskan vinnumarkað.  Það er alveg ljóst að erlendir verkamenn hafa að sjálfsögðu hvorki kjark né þor til að neita sínum atvinnurekendum um að vinna á þessum hátíðardögum af ótta við að vera vísað úr starfi. 

Slík framkoma þessara atvinnurekanda sem hér eiga hlut að máli er til háborinnar skammar og alveg ljóst að með þessu áframhaldi mun þeim takast að eyðilega þennan hátíðardag íslenskra verkamanna.  Við því verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að bregðast af fullum þunga og ekki mun Verkalýðsfélag Akraness láta sitt eftir liggja í þeim efnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image