• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Mar

Lágmarkslaun væru 24.000 kr. hærri á mánuði, hefðu þau fengið sömu prósentuhækkanir og þingfarakaupið á síðustu 10 árum

Í samantekt sem VLFA hefur gert kemur fram að þingfarakaupið hefur hækkað um 40% meira heldur en lágmarkslaun á tímabilinu 1997 til ársins 2007.

Árið 1997 voru lágmarkslaun 61.000 kr. en í dag eru þau 125.000 og hafa því hækkað um 64.000 kr á mánuði eða um 105%. 

Athyglisvert er að sjá hversu miklu hærri prósentuhækkanir hafa komið til þingmanna heldur en verkfólks sem starfar eftir lágmarkslaunum á síðustu 10 árum.

Árið 1997 var þingfarakaupið 212.000 kr. en í dag er það 518.000 kr. og hefur hækkað um 306.000 kr á mánuði eða sem nemur 145%.

Einstaka þingmönnum hefur verið tíðrætt um að lægstu launin hafi hækkað verulega hér á landi á undanförnum árum nægir þar að nefna þingmenn eins og Pétur Blöndal og Einar Odd Kristjánsson í því samhengi. 

Staðreyndin er hins vegar sú að laun þingmanna hafa hækkað um 306 þúsund á mánuði á meðan lægstu launin hafa einungis hækkað um 64 þúsund.  Þingfarakaupið hefur eins og áður sagði hækkað um 40% meira heldur en lægstu launin.

Ef lægstu launin hefðu fengið sömu prósentuhækkun og þingmenn á umræddu tímabili þá væru lágmarkslaunin ekki 125.000 eins og þau eru í dag heldur 149.000 og munar þar um 24.000 á mánuði.

Vissulega þarf verkalýðshreyfingin að skoða nánar hvort hún eigi að taka upp krónutöluhækkanir handa þeim sem lægstu hafa launin.  Það er eðli málsins samkvæmt ekki sama hvort þriggja prósenta hækkun leggst ofaná 125.000 lágmarkslaun  eða þingfarakaup sem nemur 518.000.  Við slíka 3% hækkun myndu lágmarkslaunin hækka einungis um 3.750 á meðan þingfarakaupið myndi hækka um 15.540, munurinn er 11.790.  Prósentuhækkanir gera lítið ekkert annað en að auka á það launamisrétti sem ríkir í þessu landi.

Formaður félagsins ætlar ekki að leggja mat á hvort þingfarakaupið sé of hátt eða ekki og ugglaust vinna langflestir þingmenn vel fyrir sínum launum, enda ábyrðarfullt starf að vera þingmaður. 

Staðreyndin er hins vegar sú að lágmarkslaun hafa fengið 40% minni hækkun á síðustu tíu árum sé tekið mið af þingfarakaupinu.  Það er hollt fyrir þá þingmenn sem tala ætíð um að lægstu launin hafi hækkað mikið á undaförnum árum, að minnast að þeir hafa sjálfir fengið 40% meiri hækkun en verkafólk sem tekur laun eftir lágmarkslaunum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image