• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Tryggja verður að lyfjaskimun á starfsmönnum sé innan gildandi laga Trausti Gylfason öryggisfulltrúi Norðuráls
05
Jan

Tryggja verður að lyfjaskimun á starfsmönnum sé innan gildandi laga

Eins og fram hefur komið á heimasíðu Norðuráls þá hefur Norðurál til athugunar að taka upp lyfjaskimun sem lið í heildaráætlun um öryggi starfsmanna sinna. Í þessu skyni hefur Norðurál fengið til liðs við sig innlent sérfræðifyrirtæki sem hefur áralanga reynslu af framkvæmd lyfjaskimunar fyrir fyrirtæki á Íslandi. Komi til lyfjaprófana á vegum Norðuráls verða þau útfærð að höfðu samráði við verkalýðsfélög, innan ramma viðeigandi laga og í samræmi við reglur þeirra opinberu stofnana sem í hlut eiga.

Á miðvikudaginn var áttu stéttarfélögin mjög góðan fund með forsvarsmönnum Norðuráls þar sem þessi mál voru rædd.  Á fundinum var ákveðið að setja málið í ákveðinn farveg til skoðunar í fullri samvinnu við stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að fyrirtækið leiti allra leiða til að tryggja öryggi starfsmanna sem best.  En það er skoðun formanns félagsins að það þurfi að liggja algerlega fyrir að þegar tekið er fíkniefnapróf á starfsmönnum þá sé það innan ramma þeirra laga sem gilda um slík próf. 

Það verður að kanna það mjög vel hvort verið sé að brjóta á réttindum starfsmanna þegar slík próf fara fram eins og t.d. lög um persónuvernd einstaklinga sem og önnur þau lög sem kunna að gilda um lyfjaskimun af því tagi sem Norðurál hefur í hyggju að taka upp í fyrirtækinu.

Þá má nefna það að maður að nafni Ólafur Skorrdal sendi fyrirspurn til Dómsmálaráðuneytisins, 8. janúar 2004 varðandi fíkniefnaprófanir á lögregluþjónum, bæði almennum og öðrum innan rannsóknardeilda lögreglunnar.  Í svari frá Dómsmálaráðuneytinu sem barst 13. janúar 2004 kom eftirfarandi fram.

"Vísað er til fyrirspurnar þinnar til dómsmálaráðuneytisins varðandi fíkniefnaprófanir á lögreglumönnum, bæði almennum og öðrum innan rannsóknardeilda lögreglunnar.

Lögreglumenn eru ekki látnir gangast undir líkamsrannsókn vegna leitar að fíkniefnum. Til að lögreglan framkvæmi slíka rannsókn þarf að vera fyrir hendi rökstuddur grunur um lögbrot og gildir þá einu hvort sá einstaklingur er lögreglumaður eða ekki. Heimild til líkamsrannsóknar (líkamsskoðunar) grundvallast á 92., 93. og 96. gr. laga um meðferð opinbera mála nr. 19/1991. Ekki er tilefni til að leggja þær kvaðir á lögreglumenn sem þú nefnir í fyrirspurn þinni. Fyrrnefnd lög er unnt að nálgast á vef Alþingis".

Undir þetta ritaði
Guðmundur Guðjónsson
yfirlögregluþjónn
hjá ríkislögreglustjóranum

Á þessi svari sést að vanda þarf vel til verka þegar ákveðið er að taka upp lyfjaskimun í fyrirtækjum.  Formaður VLFA vill samt að það komi skýrt fram að hann er hlynntur öllum þeim aðgerðum sem stuðla að bættu öryggi starfsmanna, en það verður að vera eins og áður sagði gulltryggt að þær aðgerðir séu innan ramma þeirra laga sem gilda um slík lyfjapróf.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image