• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Atvinnuhorfur á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness feiki góðar um þessar mundir Störfum hjá Íslenska járnblendinu mun fjölga um allt að 35
11
Jan

Atvinnuhorfur á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness feiki góðar um þessar mundir

Óhætt er að segja að það sé bjart yfir atvinnuhorfum hjá okkur Skagamönnum á næstu misserum.  Formanni Verkalýðsfélags Akraness reiknast til að það séu að skapast allt að 100 ný störf bæði hér á Akranesi og störf tengd stóriðjunni á Grundartangasvæðinu. 

Í desember byrjaði Norðurál að ráða starfsmenn vegna loka stækkunarinnar, en í lokaáfangann þurfti Norðurál að ráða á milli 50 til 60 nýja starfsmenn.  Í dag á Norðurál eftir að ráða í kringum 30 starfsmenn og munu þær ráðningar fara fram í janúar og febrúar.  Þegar stækkuninni er lokið er áætlað að starfsmenn Norðuráls verði í kringum 430.

Síðan er rétt að nefna það að Íslenska járnblendifélagið hefur ákveðið að hefja framleiðslu á sérefni sem nefnist FSM og er áætlað að sú framleiðsla hefjist í febrúar 2008.  Reiknað er með að starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins fjölgi um allt að 35 við þessa nýju framleiðslu.

Einnig hafa forsvarsmenn HB Granda gefið það út að þeir hafi í hyggju að hefja beinabræðslu hér á Akranesi í það minnsta tímabundið, en sú starfsemi hefur verið í Reykjavík undanfarin ár.  Við þessa tilfærslu munu einhver ný störf skapast í verksmiðjunni að nýju.  Einnig hefur verið haft eftir forsvarsmönnum HB Granda að hugsanlegt sé að landvinnslan verði aukin í kjölfar þess að fjölveiðiskipið Engey hefur verið sett í ný verkefni útí heimi.  Vonandi mun það skapa einhver ný störf, en það er alls óvíst.

Í fréttum í gær kom fram hjá forstjóra Sementsverksmiðjunnar að þeir hafi áhuga á að auka framleiðsluna um allt að 50% sem þýðir að 6 ný störf myndu skapast við þá aukningu. 

Ef við listum þetta nánar upp þá eru eftirfarandi störf í boði á næstu 12 mánuðum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness:

  • Norðurál 30 ný störf.
  • Íslenska járnblendið 35 ný störf.
  • HB Grandi í það minnsta 6 ný störf (tímabundið)
  • Sementsverksmiðjan 6 ný störf (ekki öruggt)
  • Gámaþjónustan auglýsir eftir starfsmönnum (ekki vitað hversu mörgum)
  • Trésmiðjan Akur auglýsir eftir smiðum (ekki vitað hversu mörgum)

Á þessu sést að atvinnuhorfur á Akranesi eru feiki góðar um þessar mundir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image