• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Nov

Er óheftur innflutningur á erlendu vinnuafli hingað til lands farinn að hafa neikvæð áhrif á launakjör íslenskra launþega?

Það kom formanni félagsins ekki á óvart að umræða um málefni erlends vinnuafls skyldi blossa upp í íslensku samfélagi eins gerðist í síðustu viku.  Reyndar vekur það furðu hjá formanni félagsins hvernig einstaka aðilar í þjóðfélaginu hafa brugðist illa við þeirri umræðu sem lýtur að erlendu vinnuafli.   Þessir sömu aðilar hafa talað um að verið sé að ala á kynþáttafordómum og ótta í garðs erlends vinnuafls með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað að undaförnu. 

Umræðan um erlent vinnuafl á ekki að snúast um trúarbrögð eða litarhátt fólks.  Umræðan á að snúast um íslenskan vinnumarkað og hvaða áhrif og afleiðingar óheftur innflutningur á erlendu vinnuafli hefur á launakjör íslenskra launþega.  Einnig á umræðan að snúast um hvernig hægt er að koma í veg fyrir að óprúttnir atvinnurekendur misbjóði erlendu verkafólki bæði hvað varðar aðbúnað sem og önnur starfskjör.

Ætla þingmenn og aðrir stjórnmálamenn að halda því fram að óheftur innflutningur á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu hafi ekki slæm áhrif á það markaðslaunakerfi sem hefur verið við lýði hér á landi á undanförnum árum og áratugum?

Er óeðlilegt að íslenskir launþegar hafi áhyggjur af sinni afkomu þegar tekið er tillit til þess að um 10 þúsund erlendir starfsmenn hafa komið inn á íslenskan vinnumarkað og það bara í ár?  Það er vitað að stórhluti þeirra erlendu starfsmanna sem hingað koma til starfa eru settir á berstrípaða lágmarkstaxta, en ekki á þau markaðslaun sem gilda á viðkomandi starfssvæði.   Þessu til viðbótar er verið að þverbrjóta á réttindum erlends verkafólks bæði hvað varðar aðbúnað og önnur starfskjör og þau brot eiga sér stað um land allt, eins og margoft hefur komið fram hjá stéttarfélögunum og fjallað hefur verið um á Alþingi.

Hvað sagði ekki Atli Gíslason þingmaður VG í ræðu á Alþingi þar sem fjallað var um atvinnu og búsettu launafólks frá EES?

"Ég vil nefna dæmi um verkamannahóp sem var að vinna í Reykjavík með 400 kr. jafnaðarkaup á tímann, vann 16 tíma á sólarhring, klæðalítill og aðbúnaðurinn allur í skötulíki.

Ég hitti þessa útendinga næstum á hverjum degi, veit nákvæmlega hver staða þeirra er, tel fram fyrir þá og sinni þeim á alla kanta.  Ég þoli ekki að sjá Pólskan verkamann vinnandi  á Seltjarnarnesi í 15 stiga gaddi fyrir 400 kr. á tímann og búa svo í gámi.  Það þarf ekkert að kanna eða rannsaka".

Það eru svona dæmi sem verkalýðhreyfing er búin að vera að benda á allt síðasta ár.  Það eru brot af þessu tagi sem eru að gjaldfella launakjör hjá íslenskum launþegum og sérstaklega hjá verkafólki. 

Að sjálfsögðu hefur óheftur innflutningur á ódýru vinnuafli slæm áhrif á launakjör íslenskra verkamanna.  Hvað sagði ekki Guðmundur Þ Jónsson varaformaður Eflingar í viðtali við Fréttablaðið 3. apríl sl.   Laun erlendra verkamanna í byggingariðnaði hafa lækkað um 30% að undaförnu.  Einnig kom fram í viðtalinu að laun íslenskra byggingaverkamanna væru byrjuð að lækka. 

Hvað sagði Steingrímur J Sigfússon þingmaður Vinstri-grænna í ræðu á Alþingi þar sem fjallað var um atvinnu og búsettu launafólks frá EES?

 "Það vita t.d allir að laun ófaglærða verkamanna eru á hraðri niðurleið, líka Íslendinga, vegna þess að þeir eru pressaðir niður á sömu kjör og hægt er að flytja inn Pólverja eða Eystrasaltsbúa á.  Fróðir menn segja mér að tímakaupið hafi jafnvel lækkað um 250-300 kr. á einu ári"

Formaður VLFA óttast að íslenskir verkamenn og iðnaðarmenn séu byrjaðir að missa störf sín vegna þess hve aðgengi atvinnurekenda að ódýru erlendu vinnuafli er orðið auðvelt.

Nánast öll verkalýðshreyfingin benti í sínum ályktunum á að óheftur innflutningur á ódýru vinnuafli myndi grafa undan því markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði og um leið gjaldfella launakjör hjá íslenskum launþegum.  

Hvað mun gerast þegar samdráttur verður á íslenskum vinnumarkaði? Verða það íslenskir verkamenn sem starfa á hefðbundnum markaðslaunum sem munu fyrstir missa atvinnuna eða verða það erlendir starfsmenn sem sætta sig við að starfa á berstrípuðum lágmarkstöxtum og jafnvel vel undir þeim?  Formaður Verkalýðsfélags Akraness hræðist að það verði íslenskt verkafólk sem verði undir í þeirri baráttu. 

Þetta er  ástæðan fyrir því að 70% þjóðarinnar vill að innflutningi á erlendu vinnuafli verði stjórnað með einum eða öðrum hætti. 

Formaður félagsins spyr, eru íslenskir launþegar að ala á kynþáttafordómum með því að hafa áhyggjur launakjörum sínum og jafnvel störfum sínum, í kjölfar þeirrar sprengingar sem orðið hefur á erlendu vinnuafli hingað til lands?

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image