• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Sep

Formaður félagsins skorar á Svein Kristinsson að fara yfir þau launaáhrif sem sameining Stak við Starfsmannafélag Reykjavíkur hefði á þá sem lægstu hafa launin

Sveinn Kristinsson fulltrúi Samfylkingar í bæjarráði fer mikinn í viðtali við Skessuhornið í gær. Sveinn er afar óhress með að formaður Verkalýðsfélags Akraness skuli á heimasíðu félagsins voga sér að gagnrýna bókun sem Sveinn gerði í bæjarráði vegna þeirrar ákvörðunar meirihluta bæjarráðs að hækka laun þeirra starfsmanna sem lægstu launin hafa hjá Akraneskaupstað.

Um hvað snýst umrædd bókun hjá Sveini?  Hún snýst um það að Sveinn lét bóka að hann teldi samþykktina um hækkun lægstu launa óheppilega. Vísaði hann til þess að í vor samþykkti bæjarstjórn samhljóða að verða við tilmælum Starfsmannafélags Akraness um að ef félagið sameinaðist Starfsmannafélagi Reykjavíkur myndu bæjaryfirvöld samþykkja fyrir sitt leyti að kjarasamningar yrðu á hendi hins sameinaða stéttarfélags.  Einnig kemur fram í umræddri bókun að Sveinn telji nauðsynlegt að hækka laun hinna lægst launuðu hjá bænum en telur sameiningu stéttarfélaganna farsælli leið til þess.

Það er að mati formanns félagsins afar ámælisvert af Sveini Kristinssyni að halda því fram í umræddri bókun að farsælla sé fyrir hinna lægst launuðu sem starfa hjá Akraneskaupstað að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar til að fá hækkun á sínum launum. 

Tökum dæmi: ef Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar væri sameinað Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og starfsmenn Akraneskaupstaðar tækju laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar hvað myndi það þýða fyrir þá lægst launuðu hjá Akraneskaupstað?  Starfsmenn sem starfa við ræstingar og í þvottahúsi hafa í dag samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitafélaga 143.279 kr. í laun með mánaðarlegum eingreiðslum.  Ef sömu starfsmenn myndu taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá væru launin fyrir fullt starf 132.494 kr. á mánuði. Mismunurinn er hvorki meira né minna en 10.785 á mánuði eða 129.420 kr. á ári.

Hérna kemur annað dæmi: verkamenn sem starfa við sorpmóttöku hafa í laun í dag samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitafélaga 148.459 kr. með mánaðarlegum eingreiðslum.  Ef sömu starfsmenn myndu taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá væru launin fyrir fullt starf 147.048 kr. á mánuði. Mismunurinn er 1.410 kr. á mánuði eða 16.920 kr. á ári.

Tökum fleiri dæmi.  Starfsmenn sem starfa sem aðstoðarmenn í eldhúsi (matráður I) hafa í laun í dag samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitafélaga 148.458 kr. með mánaðarlegum eingreiðslum.  Ef sömu starfsmenn myndu taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá væru launin fyrir fullt starf 147.078 kr. á mánuði. Mismunurinn er 1.380 kr. á mánuði eða 16.560 kr. á ári.  Í öllum þessum dæmum er ekki tekið tillit til starfsaldurs.

Það eru blákaldar staðreyndir að þeir tekjulægstu sem starfa hjá Akraneskaupstað myndu einfaldlega lækka í launum við það að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. 

Það er með hreinustu ólíkindum að Sveinn Kristinsson skuli telja það pólititískar árásir á sig þegar formaður félagsins bendir ófaglærðu starfsfólki Akraneskaupstaðar á að það hefði lægri laun ef það tæki laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar.

Karl Björnsson hjá Launanefnd sveitafélaga var búinn að benda á í viðtali við Skessuhornið að þeir sem lægstu hefðu launin hjá Akraneskaupstað myndu nánast ekki hækka neitt við að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og í sumum tilfellum myndu starfsmenn lækka í launum.  Jafnframt benti Karl á að þeir sem hæstu hefðu launin myndu hækka mest við sameiningu.  

Sveinn sagði við Skessuhornið í gær að hann undraðist að formaður Verkalýðsfélags Akraness skuli helst treysta málflutningi Karls Björnssonar, harðsnúnasta samningamanns Launanefndar sveitafélaga og væntanlega er Sveinn að draga í efa þau ummæli Karls að þeir tekjulægstu fengu minnst og þeir tekjuhæstu mest við sameingu félaganna.

Málið er að formaður Verkalýðsfélags Akraness byggir útreikninga sína á fyrirliggjandi kjarasamningum þessara tveggja stéttarfélaga og einnig fyrirliggjandi starfsmati.  Þannig að formaður félagsins þarf á engan hátt að treysta samningamanni launanefndar í þessu máli. Hann hefur hins vegar komist að sömu niðurstöðu og Karl Björnsson í þessu máli þegar fyrirliggjandi gögn eru skoðuð.

Einnig sagði Sveinn orðrétt við Skessuhornið í gær "Mér finnst ekki mikil reisn yfir þeirri leið, sem formaður Verkalýðsfélags Akraness mælir með, að þiggja launabætur með sérstökum samþykktum stjórnmálamanna og maula þannig einhverja mola úr lófum þeirra". 

 

Hið rétta er að formaður félagsins fagnaði því að meirihluti bæjarráðs ákvað að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað.  Formanni VLFA er alveg sama hvort Sveini finnst lítil reisn yfir þeirri leið sem bæjarráð fór varðandi launahækkanir til þeirra lægst launuðu.  Það sem skiptir máli er að laun þeirra voru hækkuð.  Rétt er að spyrja Svein að því hvort honum hafi fundist lítil reisn yfir þeim einhliða launahækkunum sem fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkuborgar kom með í desember 2005?.  Eitt er víst að formaður VLFA fagnaði þeim sem og öðrum launahækkunum til handa þeim sem lægstu hafa launin. 

Vissulega er það rétt hjá Sveini að félagsmenn Stak eigi að ráða örlögum sínum sjálfir varðandi sameiningu.  En það er algert lágmark að félagsmenn séu rétt upplýstir um breytingu á launakjörum við sameiningu við Starfsmannafélag Reykjavíkur.  Það er því ámælisvert hjá Sveini að reyna að telja þeim tekjulægstu í trú um að það sé farsælast að sameinast Starfsmannfélagi Reykjavíkur til að fá launahækkun.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á Sveinn Kristinsson að fara yfir fyrirliggjandi gögn ásamt formanninum. Án nokkurs efa munu þau sýna fram á að laun tekjulægstu starfmanna Akraneskaupstaðar myndu lækka við sameiningu.  Einnig mun koma í ljós veruleg hækkun hjá þeim tekjuhæstu við sameiningu Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar við Starfsmannafélag Reykjavíkur.

Rétt er að segja frá því að formaður félagsins fundaði með bæjarráði í vor þegar Sveinn var í meirihluta um þessi mál.  Á þeim fundi spurði formaður VLFA Svein hvort hann teldi það sanngjarnt að við sameiningu Stak við Starfsmannafélag Reykjavíkur, myndu þeir sem lægstu hefðu launin lækka eða standa í stað á meðan stjórnendur hækkuðu margir hverjir um tugi þúsunda á mánuði.  Sveinn kannski svarar því núna hvort hann telji það sanngjarnt.

Að lokum spyr formaður:  átti hann að láta ógert að benda t.d ræstingafólki og starfsfólki í þvottahúsi sem starfar hjá Akraneskaupstað á þá staðreynd að við sameiningu við Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar gæti það jafnvel lækkað í launum um 10.785 kr. á mánuði?  Formaður félagsins spyr sig hvort hann hefði átt að þegja yfir þessum mismuni. Kannski að einhverjir hefðu viljað það, en ekki formaður VLFA svo mikið er víst. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image