• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Jul

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti mjög góðan fund með forsvarsmönnum HB Granda í gær

Formaður félagsins átti góðan fund með forsvarsmönnum HB-Granda í gær.  Tilefni fundarins var að fara yfir þann samdrátt sem átt hefur sér stað hér á Akranesi að  

undanförnu. Einnig vildi félagið fá svör við því hvort frekari samdráttur væri fyrirhugaður á næstunni.

Þeir sem sátu fundinn auk formanns Verkalýðsfélags Akraness voru Eggert Guðmundsson forstjóri, Vilhjálmur Vilhjálmsson deildarstjóri uppsjávardeildar og Torfi Þorsteinsson framleiðslustjóri.

Formaður félagsins lýsti yfir vonbrigðum sínum með þann samdrátt sem átt hefur sér stað frá því HB sameinaðist Granda.  Eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa um 60 störf tapast frá sameiningu.  Formaður félagsins óskaði eftir skýrum svörum frá forsvarmönnum HB Granda um hver framtíðaráform fyrirtækisins séu hér á Akranesi.

Fram kom í máli forsvarsmanna HB Granda að frekari samdráttur sé ekki fyrirhugaður.  Einnig sögðu þeir að samdráttur í loðnuveiðum hefði gert það að verkum að fækka hefði þurft starfsfólki í síldarbræðslunni stórlega og einnig hefði þurft að leggja loðnuskipinu Víkingi Ak 100 af þeim sökum.  Það kom skýrt fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að bæði Víkingur Ak og síldarbræðslan munu verða keyrð á fullu gasi aftur ef það kemur til góðrar loðnuvertíðar.  Þetta telur formaður félagsins afar jákvætt

Forsvarsmenn HB Granda sögðu varðandi landvinnsluna að hún gengi nokkuð vel.  Frystihúsið hefur verið að sérhæfa sig í vinnslu á þorski og engar breytingar væru fyrirhugaðar í þeim efnum.

Formaður félagsins spurði hvort ekki væri tryggt að landanir úr frystitogurum yrðu áfram hér á Akranesi og kváðu þeir að þær yrðu áfram með sama sniði og verið hefur.

Að lokum spurði formaður félagsins hvort einhverjar breytingar væru fyrirhugaðar á skipastól fyrirtækisins sem tengist okkur Skagamönnum þ.e Ingunni Ak, Höfrungi Ak, Helgu Maríu Ak og Sturlaugi Ak.  Það kom skýrt fram hjá forsvarsmönnum HB Granda að engar breytingar væri fyrirhugaðar á rekstri umræddra skipa.

Heilt yfir var þetta mjög góður og gagnlegur fundur sem gefur vonir um að samdrætti sé lokið að minnsta kosti í bili.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image