• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Jul

Lögreglan á Akranesi á hrós skilið !

 Eins og flestir vita þá urðu breytingar á lögum í maí um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.  

Af því tilefni sendi lögreglan á Akranesi flestum atvinnurekendum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness bréf þar sem það var áréttað að umtalsverðar skyldur hvíla enn á þeim atvinnurekendum sem ráða til sín erlenda starfsmenn frá hinum nýju aðildarríkum EES, þó svo að kvöð um atvinnuleyfi sé ekki lengur fyrir hendi.

Formaður félagsins veit ekki til þess að upplýsingabréf að þessu tagi hafi verið sent annars staðar en á Akranesi. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur fulla ástæðu til að hrósa lögreglunni á Akranesi fyrir þetta framtak og einnig fyrir mjög gott eftirlit með að lögum um atvinnuréttindi útlendinga sé framfylgt af hálfu atvinnurekenda.  Samstarf Verkalýðsfélags Akraness við lögregluna hefur verið með eindæmum gott hvað varðar eftirlit með ólöglegu vinnuafli á okkar félagsvæði. Sem dæmi má nefna þá ákærði sýslumaðurinn á Akranesi atvinnurekanda hér í bæ fyrir að hafa haft tvo Litháa í vinnu án atvinnuleyfis eftir ábendingu frá Verkalýðsfélaginu. Hérðasdómur Vesturlands felldi dóm í því máli fyrir skemmstu þar sem atvinnurekandinn var dæmur sekur fyrir brot sitt.

Skemmst er að minnast þess þegar lögreglan og skattstjórinn á Vesturlandi heimsóttu fjölmörg fyrirtæki á Akranesi sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu.  Var það gert til að kanna hvort fyrirtækin væru ekki að fara eftir þeim lögum sem gilda um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. 

Það er mat formanns félagsins að þessum góða árangri sem náðst hefur í málefnum erlends vinnuafls á okkar félagssvæði megi þakka þeim samstarfshópi sem komið var á fót í vetur. Í þessum samstarfshópi voru sýslumaðurinn Akranesi, skattstjóri Vesturlands, bæjarstjórinn og formaður Verkalýðsfélags Akraness.  

Bréfið í heild sinni má lesa með því að smella á meira.      

Til upplýsinga / atvinnurekendur á Akranesi

 

Í lok maí urðu breytingar á lögum um frjálsan atvinnu-og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.  Að gefnu tilefni vill lögreglan á Akranesi árétta við atvinnurekendur að talsverðar skyldur hvíla enn á þeim sem ráða til sín erlenda starfmenn frá nýju EES-löndunum þó svo að kvöð um atvinnuleyfi sé ekki lengur fyrir hendi. 

 

Ný EES-lönd sem hér um ræðir eru þá eftirfarandi : Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland

                       

     Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnumálastofnun um ráðningu ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands eða Ungverjalands til starfa

     Í tilkynningunni skal koma fram nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang ásamt nafni útlendingsins, kennitölu og aðsetri hans hér á landi.

      Enn fremur skal fylgja tilkynningunni ráðningarsamningur sem tryggi útlendingnum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum

     Tilkynningin skal berast Vinnumálastofnun innan tíu virkra daga frá ráðningu. 

     Ef atvinnurekandi lætur hjá líða að senda Vinnumálastofnun tilkynningu getur stofnunin ákveðið að atvinnurekandi greiði dagsektir þar til tilkynning berst stofnuninni en dagsektir geta numið allt að 50.000 kr. á sólarhring.

     Athuga að allir EES-ríkisborgarar þurfa að afla sér EES-dvalarleyfis eftir þriggja mánaða dvöl hér á landi (  Útlendingastofnun ) óháð þjóðerni.

 

 

 

 

Lögreglan Akranesi 26.05.2006

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image