• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Jun

12 þúsund króna hækkun er einfaldlega of lítið

Starfsgreinasamband Íslands hélt formannafund í gær.  Einungis eitt mál var til umræðu á fundinum en það var tilboð sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram til hækkunar á launatöxtum. Mun tilboðið taka gildi 1. júlí ef samkomlag næst.  Með þessu tilboði vilja SA reyna að forða því að kjarasamningum verði sagt upp í haust. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er hlynntur því að reyna eftir fremsta megni að ná samkomulagi við Samtök atvinnulífsins.  En til að það geti orðið að veruleika þarf að þroska þessar hugmyndir sem SA hefur lagt fram. 

Það er mat formanns félagsins að 12 þúsund króna hækkun á launatöxtum handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði sé einfaldlega of lág.  Rétt er að minna á að kjarasamningur sem gerður var við Starfsgreinasambandið 7. mars 2004 og gildir fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði gaf langt um minna en aðrir samningar sem síðar voru gerðir. 

Hvað var sagt við verkafólk þegar kjarasamningurinn var gerður 7. mars 2004?  Jú, því var sagt að með því að gera kjarasamning til fjögurra ára og hafa kauphækkanir á samningstímanum hóflegar þá myndi það leiða af sér lága verðbólgu. Það myndi tryggja verkafólki kaupmáttaraukningu en ekki kaupmáttarskerðingu.

Raunin varð hins vegar sú að flest allir hópar sem sömdu á eftir Starfsgreinasambandinu sömdu um langtum meira heldur en verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fékk út úr sínum kjarasamningi.  Þessu til viðbótar hefur verðbólgan verðið langt fyrir ofan viðmið Seðlabankans sem er 2.5%. Nú er verðbólgan 7.6%.  Það liggur fyrir að stór hluti þess fólks sem tekur laun eftir kjarasamningi Starfsgreinasambandsins hefur orðið fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu frá 7. mars 2004.   Það er einnig alveg morgunljóst að verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði verður ekki kennt um þann óstöðugleika sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

Ef það er einhver hópur í þessu samfélagi sem þarf að fá leiðréttingu á sínum launakjörum þá er það verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.  Það verður ekki lengur liðið að það eitt og sér sé látið viðhalda stöðugleikanum í þessu landi og sér í lagi þegar hvorki íslensk stjórnvöld né aðrir, eru tilbúnir að axla þá ábyrð.

Eins og áður sagði þá er formaður félagsins hlynntur því að reynt verði til þrautar að ná samkomlagi við Samtök atvinnulífsins.  Til að samkomulag náist verða Samtök atvinnlífsins þó að koma með hærri taxtahækkanir.  Einnig verður ríkisvaldið að koma að þessu samkomulagi.  T.d. á að gera þá skýlausu kröfu á ríkisvaldið að það hækki viðmið vaxtabóta til samræmis við hækkun á fasteignamati.  Hækkun á fasteignamati mun leiða til þess að vaxtabætur til fólks mun stórskerðast.

Rétt er að minna á að forsendur kjarasamnings SGS eru kolbrostnar á það bæði við verðbólguþáttinn og einnig þáttinn er lúta að kostnaðarhækkunum annarra kjarasamninga.  En það liggur ljóst fyrir að kostnaðarhækkanir annarra kjarasamninga eru langt yfir því sem kjarasamningur SGS gaf.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image