• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jun

Aðkoma ríkisstjórnarinnar er nauðsynleg eigi samkomulag að nást við Samtök atvinnulífsins

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur undir það með forseta ASÍ að það séu vonbrigði að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar um nýtt skattþrep fyrir lægri tekjur.  Einnig eru það gríðarleg vonbrigði að ekki skuli vera vilji hjá ríkisstjórninni til að endurskoða eftirlaun ráðherra, þingmanna og æðstu ráðamanna, en eftirlaun þessara aðila eru ekki í neinum takt við það sem almennt gerist í þessu þjóðfélagi.

Einnig er rétt að minna enn og aftur á að þingfarakaup þingmanna hafi hækkað frá 1. janúar 1998 til 1. febrúar 2006 um 114%, en lágmarkslaun verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði hækkuðu um 70% á sama tímabili.  Þingfarakaupið var árið 1998 220.168 en er í dag 471.427 og hefur því hækkað um 251.259 krónur eða um 114% frá árinu 1998.  Lágmarkslaun voru árið 1998 63.399 en eru í dag 108.000 og hafa því hækkað um 44.601 krónur eða sem nemur 70% frá árinu 1998.

Með öðrum orðum þá hefur þingfarakaup alþingismanna hækkað tæplega sexfalt umfram lágmarkslaun hjá verkafólki frá árinu 1998.  Því stenst það alls ekki eins og einstaka þingmenn hafa haldið fram að lágmarkslaun hafi hækkað umtalsvert umfram önnur laun á síðustu árum.  Einnig sést á þessum samburði að það eru ekki verkamenn á hinum almenna vinnumarkaði sem bera ábyrgð á stigvaxandi verðbólgu hér á landi.

Aðkoma ríkisstjórnar að því samkomulagi sem verkalýðshreyfingin er hugsanlega tilbúin til að gera við Samtök atvinnulífsins er bráðnauðsynleg og sú aðkoma þarf að vera í þeim anda sem verkalýðhreyfingin hefur nú þegar kynnt fyrir talsmönnum ríkisstjórnarinnar.

Það er einnig alveg ljóst að mati formanns félagsins að það tilboð sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram nægir ekki til að forða því að kjarasamningum verði sagt upp í haust.  Til dæmis verður að koma hærri hækkun á launatöxtum en 12 þúsund krónur á mánuði.  Einnig hafa Samtök atvinnulífsins boðið 6% hækkun handa því fólki sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum, en 6% hækkun handa starfsfólki sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu er lægri en 12 þúsund krónurnar sem SA hefur boðið að komi ofan á launataxtana.  Það verður að vera skýlaus krafa að starfsfólk sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu fái sambærilega hækkun og verið er að bjóða í taxtaviðaukanum.

Það er engum vafa undirorpið að það verður erfitt að ná þessu samkomulagi saman ef ríkisvaldið verður ekki tilbúið að koma mjög myndarlega að þessu samkomulagi.  Eins er það mat formanns félagsins að það verði að gera þó nokkrar lagfæringar á því tilboði sem SA hefur lagt fram til að verkalýðshreyfingin geti gengið að þessu samkomulagi.

Með því að smella hér er hægt að sjá minnisblaðið sem verkalýðshreyfingin hefur afhent fulltrúum ríkisstjórnarinnar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image