• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jun

Ríkisstjórnin hafnar nýju láglaunaskattþrepi, hins vegar vafðist ekki fyrir ríkisstjórninni á sínum tíma að afnema eignar-og hátekjuskatt

Á mbl.is í dag er haft eftir Hannesi G. Sigurðssyni hjá Samtökum atvinnulífsins að líkur séu á að samkomulag náist um hærri greiðslu en sem nemur 12 þúsund krónum í svo kölluðum taxtaviðauka.  Hversu mikið sú hækkun mun nema kom ekki fram í fréttinni.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur látið hafa það eftir sér að 15 þúsund króna hækkun á taxtaviðauka sé algert lágmark hvað varðar þann þátt samkomulagsins. 

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá þarf að tryggja þeim sem starfa í tímamældri ákvæðisvinnu sambærilega hækkun og boðið er í taxtaviðaukanum.  Einnig þarf að tryggja að umsamdar viðbótargreiðslur, t.d afkasta- eða frammistöðutengdir bónusar skerðist ekki, þó svo að ekki sé getið um þær viðbótagreiðslur í kjarasamningum.  Þetta er lykilatriði til að hægt verði að ganga að tilboði Samtaka atvinnulífsins. 

Reyndar er formaður félagsins ekki ýkja svartsýnn á að það náist að lagfæra það tilboð sem SA hefur lagt fram þannig að verkalýðshreyfingin verið nokkuð sátt.  Hins vegar hræðist formaður félagsins mun meira að aðkoma ríkisstjórnarinnar verði ekki með þeim hætti sem verkalýðshreyfingin geti sætt sig við.  Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur hafnað nýju láglaunaskattþrepi og einnig hafa þeir hafnað því alfarið að endurskoða eftirlaunafrumvarpið sem samþykkt var 2003 við litla hrifningu hjá meginþorra þessa þjóðar.  Enda eru eftirlaun æðstu ráðamanna þessarar þjóðar ekki í neinum takti við það sem gerist hjá hinum almenna launamanni.  Ekki vafðist það fyrir núverandi ríkisstjórn að afnema hátekjuskattinn og eignarskattinn.  Hins vegar tók það  ekki langan tíma hjá ríkisstjórninni að hafna verkalýðshreyfingunni um nýtt skattþrep fyrir lægstu launin.  Það er rétt að minna á að það er einungis tæpt ár í alþingiskosningar og íslenskt verkafólk verður ekki búið að gleyma þeirri höfnun og einnig verður íslenskt verkafólk ekki búið að gleyma því hvernig núverandi ríkisstjórn lagfærði skattkerfið fyrir eigna- og hátekjufólk. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image