• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jun

Persónuafslátturinn verður verðtryggður

Samkomulag hefur náðst milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins um endurskoðun kjarasamninga. Þá hefur ríkisstjórnin gefið út yfirlýsingu um aðgerðir tengdar endurskoðunin


Meginmarkmið samkomulags aðila vinnumarkaðarins og aðgerða ríkisstjórnarinnar er að eyða óvissu á vinnumarkaði og leggja grunn að hjöðnun verðbólgu þannig að hún verði komin í takt við 2,5% verðbólguviðmið kjarasamninga á síðari hluta ársins 2007.

Mikilvæg forsenda þess að þetta markmið náist er að allir aðilar samfélagsins leggi sitt að mörkum til lækkunar verðbólgu. Þar má engin skorast undan.

Hægt er að skoða samkomulagið við Samtök atvinnulífsins og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með því að smella á meira

 5,5% launaþróunartrygging og kjarasamningar í gildi út árið 2007
Samkvæmt samkomulagi forsendunefndar ASÍ og SA skal starfsmanni sem er í starfi í júníbyrjun 2006 og hefur starfað samfellt hjá sama vinnuveitanda í a.m.k. 12 mánuði tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Hafi launahækkun starfsmannsins verið minni á tímabilinu skulu laun hans hækka frá 1. júlí 2006 um þá upphæð sem á vantar til að 5,5% hækkun sé náð.

Með samkomulagi forsendunefndar telst starfi hennar lokið og munu kjarasamningar halda gildi sínu út árið 2007.

15.000 kr. taxtaviðauki
ASÍ og landssambönd þess hafa samið við Samtök atvinnulífsins um 15.000 kr. taxtaviðauka sem bætist við alla mánaðarlaunataxta kjarasamninga þessara aðila. Þessum taxtaviðauka er ætlað að draga úr því misvægi á vinnumarkaði sem myndast hefur vegna launahækkana hjá hinu opinbera á undanförnum mánuðum og misserum.

Taxtaviðaukinn hefur ekki áhrif á laun annarra en þeirra sem fá greidd laun samkvæmt umsömdum launatöxtum. Starfsmenn sem eru á hærri launum en nemur launatöxtunum eftir hækkun eiga ekki rétt á hækkun sem nemur taxtaviðaukanum.

Lágmarkslaun (lágmarkstekjur fyrir fullt starf) hækka í 123.000 kr. á mánuði, frá 1. júlí 2006.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin tekur í yfirlýsingu sinni undir þau markmið sem ASÍ og SA hafa sett sér um hjöðnun verðbólgu og mun hún eiga náið samstarf við hlutaðeigandi aðila til að tryggja þær efnahagslegu forsendur sem liggja að til grundvallar samkomulagi ASÍ og SA. Til að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi:

Hækkun skattleysismarka í 90.000 kr. um næstu áramót.

Skattleysismörk munu hækka í 90.000 kr. um næstu áramót. Persónuafsláttur verður endurskoðaður árlega og mun þá hækka í samræmi við vísitölu neysluverðs.

Vaxtabætur ársins endurskoðaðar

Ákvæði laga um vaxtabætur verða endurskoðuð ef í ljós kemur að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hafi leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.

Barnabætur til 18 ára aldurs

Um næstu áramót verða teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í samræmi við sjálfræðisaldur.

Tekjuskattur lækkar um 1% um næstu áramót

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1% stig um næstu áramót.

Framlög til fullorðinsfræðslu og starfsmenntamála

Framlög til fullorðinsfræðslu og starfsmenntamála verða aukin um 120 milljónir á ári og kemur hækkunin til framkvæmda árið 2007. Fjármunirnir eru ætlaðir til námskeiðahalds og endurmenntunar einstaklinga á vinnumarkaði, til eflinga náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats og til eflingar símenntamiðstöðvar ASÍ á höfuðborgarsvæðinu, með sambærilegum hætti og gildir á landsbyggðinni.

Vinnumarkaðurinn treystur og unnið gegn gerviverktöku og ólöglegri atvinnustarfsemi

Yfirlýst markmið er að tryggja að réttur sé ekki brotinn á erlendu launafólki og þau fyrirtæki sem starfa hér á landi virði lög og kjarasamninga. Tillögur ASÍ og SA frá 20. júní sl. um þetta efni verða hafðar til hliðsjónar og fjármögnun til verkefnisins tryggð.

Atvinnuleysisbætur hækka

Grunnfjárhæðir atvinnuleysisbóta hækka 1. júlí 2006 um 15.000 kr. til samræmis við þær hækkanir sem felast í samkomulagi ASÍ og SA. Hækkun þessi kemur til viðbótar þeirri hækkun sem þegar hafði verið ákveðin. Jafnframt mun hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækka í 185.400 kr.

Aldraðir og öryrkjar

Greiðslur til aldraðra og öryrkja verða ákveðnar til samræmis við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og hækkun atvinnuleysisbóta. Málefni þessara hópa eru í sérstakri skoðun og verður nánari útfærsla á þessum hækkunum ákveðin þar.
Sjá nánar:
Samkomulag forsendunefndar ASÍ og SA

Samningur um taxtaviðauka

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar


Tillögur ASÍ og SA vegna erlendra starfsmanna, gerviverktöku, opinberra innkaupa og lögbrota í atvinnustarfi

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image