• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jun

Sprunga hefur myndast í fjöregg okkar Skagamanna

Frystihús HB-Granda hér á Akranesi verður lokað næstu fimm vikurnar.  Svo löng sumarlokun hefur ekki átt sér stað áður í frystihúsi HB-Granda og t.d var ekkert lokað í fyrrasumar.  Það er alveg ljóst að lokun af þessari stærðargráðu hefur mjög slæm áhrif fyrir fjölmarga skólakrakka sem hafa haft atvinnu af því að vinna í frystihúsi HB-Granda á liðnum sumrum.

Samdráttur HB-Granda hér á Akranesi virðist ætla að halda áfram jafnt og þétt sé tekið mið af því sem verið hefur að gerast á liðnum misserum.  Nú er staðan þannig að stór hluti starfsmanna síldarbræðslunnar hefur látið af störfum vegna verulegs tekjusamdráttar.  Víkingur AK 100 liggur bundinn við bryggju og alls óvisst um framtíð skipsins, allflestir skipverjar hafa horfið til annarra starfa.  Eins og flestir vita var skuttogaranum Haraldi Böðvarssyni lagt fyrir nokkrum árum og við það töpuðust einnig störf. 

Allir æðstu stjórnendur HB-Granda hér á Akranesi hafa látið af störfum, annað hvort verið sagt upp eða þeir sagt starfi sínu lausu. Nægir þar að nefna menn eins og Harald Sturlaugsson, Sturlaug Sturlaugsson sem var ráðinn forstjóri HB-Granda við sameiningu og  Guðmund Pál Jónsson sem gegndi starfi starfmannastjóra  í áratugi hjá Haraldi Böðvarssyni.  Með öðrum orðum hafa allir æðstu stjórnendur Haraldar Böðvarssonar látið af störfum eftir að fyrirtækið sameinaðist Granda.  Staðan er því þannig núna að við Skagamenn eigum engan talsmann lengur hjá HB-Granda. Er það að mati formanns félagsins mjög slæmt.

Það er engum vafa undirorpið að sameining Haraldar Böðvarssonar við Granda á sínum tíma hefur leitt af sér umtalsverða tekjulækkun til samfélagsins á Akranesi. 

Við Skagamenn verðum að standa einarðir vörð um þau störf sem eftir eru, einfaldlega vegna þess að HB hefur verið fjöregg okkar Akurnesinga í marga áratugi.  Núna bendir allt til þess að sprunga hafi myndast í fjöregg okkar Skagamanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image