• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
May

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands hafnar því að halda formannafund

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendi Starfsgreinasambandi Íslands bréf 2. maí sl. og óskaði eftir því að haldinn yrði formannafundur.  Það er mat stjórnar félagsins að mjög veigamikil mál hafi verið afgreidd á liðnum mánuðum sem hafi gengið þvert á hagsmuni félagsmanna VLFA.  Þetta eru mál eins og frumvarp um starfsmannaleigur, frjálsa för launafólks frá hinum nýju ríkum EES og síðast en ekki síst endurskoðun kjarasamninga sem fór fram í desember. 

Stjórn félagsins hefur gagnrýnt það harðlega að ekki var mótuð sameiginleg stefna í þessum málum af hálfu formanna Starfsgreinsambandsins og sum þeirra hafa vart verið rædd t.d endurskoðun kjarasamninga. 

Svar hefur borist til Verkalýðsfélags Akraness og kemur fram í svarbréfinu að framkvæmdastjórn SGS sjái ekki ástæðu til að kalla saman formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins til að fjalla um umrædd mál. Er þessi afstaða SGS óskiljanleg með öllu.  Verkalýðsfélag Húsavíkur óskaði einnig eftir því við SGS að haldinn yrði formannafundur þar sem til umfjöllunar yrðu kjaramál og sá óróleiki sem er hjá verkafólki sem starfar á hinum almenna vinnumarkaði.  Verkalýðsfélagi Húsavíkur var einnig hafnað um formannafund.  Rétt er að benda á að verkafólk sem tekur laun eftir kjarasamningi SGS hefur setið verulega eftir hvað varðar launahækkanir á við aðra hópa.  Sem dæmi þá eru laun hjá sveitarfélögunum og ríki fyrir sambærileg störf um 20 til 30 þúsundum hærri en hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði.

Það liggur líka fyrir að Samtök atvinnulífsins er byrjuð að undirbúa sig fyrir endurskoðun kjarasamninga og hafa m.a. rætt við formann félagsins um þau mál.  Forsendunefndin á að vera búin að meta samningsforsendur fyrir 15. nóv. 

Því er það afar undarlegt að forysta SGS sjái ekki ástæðu til að kalla saman formenn aðildarfélaga SGS til að móta sameiginlega kröfu hvað varðar endurskoðun kjarasamninga og sérstaklega í ljósi þeirrar vinnu sem er nú þegar hafin hjá Samtökum atvinnulífsins. Hins vegar ætlar Starfsgreinasamband Íslands að halda kjaramálaráðstefnu í haust. Er það að mati formanns félagsins allt of seint í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins eru nú þegar byrjuð að undirbúa endurskoðun kjarasamninga eins og áður sagði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image