• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Apr

Félagmálanefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn Verkalýðsfélags Akraness

Félagsmálanefnd Alþingis hefur óskað eftir því við formann félagsins að Verkalýðsfélag Akraness veiti umsögn um frumvarp sem félagsmálaráðherra hefur lagt fram.  Frumvarpið lýtur að frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum Evrópusambandsins.

Að sjálfsögðu mun Verkalýðsfélag Akraness verða við beiðni félagsmálanefndar og skila inn umsögn fyrir kl. 17:00 miðvikudaginn 26. apríl eins og óskað var eftir.

Afstaða stjórnar Verkalýðsfélags Akraness er hvellskýr í þessu máli, þ.e að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum afnema takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum ESS þann 1. maí nk.  Til að mynda voru 2.417  Íslendingar án atvinnu í mars samkvæmt nýjum tölum frá Vinnumálastofnun og því til viðbótar eru 600 manns að missa atvinnuna á Reykjanesi vegna brotthvarfs Bandríkjahers. 

Með því að falla frá skilyrði um atvinnuleyfi má reikna með að gríðarlegur fjöldi erlendra starfsmanna streymi til landsins í leit að atvinnu, þar sem þeir margir búa þeir við viðvarandi atvinnuleysi og hörmuleg kjör í sínu heimalandi.  Reynslan sýnir okkur að einstaka atvinnurekendur víla ekki fyrir sér að nýta sér þessa aðstöðu til að koma sér upp ódýru vinnuafli og pressa á lækkun þeirra kjara sem þekkjast á íslenskum vinnumarkaði.

Þá er líklegt að aukið framboð á starfsfólki frá þessum löndum ýti enn frekar undir lækkun markaðslauna, gerviverktöku og atvinnuleysi meðal Íslendinga.

Verkalýðsfélag Akraness telur íslenskan vinnumarkað ekki tilbúinn til að taka við auknu flæði launafólks 1. maí. Þess vegna telur félagið eðlilegt að fresta gildistöku reglnanna um þrjú ár og tíminn notaður til að setja skýrar reglur sem kveði á um ábyrgð fyrirtækja sem ráða til sín erlent starfsfólk varðandi kjör og skattskil til opinberra aðila.

Það þarf að liggja fyrir að stéttarfélögin hafi heimild til að afla gagna hjá atvinnurekendum sem hafa erlent vinnuafl í sinni þjónustu, t.d. ráðningarsamninga, tímaskriftir og launaseðla og það án þess að grunur um brot sé til staðar.  Þessi heimild verður að vera til staðar því reynslan sýnir að erlent vinnuafl veit einfaldlega ekki hver réttindi sín eru á íslenskum vinnumarkaði  og dæmin sýna að einstaka atvinnurekendur hafa nýtt sér vankunnáttu erlends vinnuafls á réttindum sínum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image