• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness samþykkti ályktun um frjálsa för launafólks frá EES

Aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness var að ljúka rétt í þessu.  Fundur gekk mjög vel og var mæting alveg þolanleg.  Endurskoðandi félagsins fór yfir reikninga félagsins og kom fram í máli endurskoðanda að afkoma félagsins væri mjög góð.

Ný reglugerð sjúkrassjóðs var samþykkt og mun hún klárlega veita félagsmönnum mun betri og víðtækari réttindi í veikinda og slysatilfellum heldur en áður hafa þekkst hjá félaginu.

Aðalfundur félagsins samþykkti  ályktun um frjálsa för launafólks frá nýjum aðildarríkum EES.  En landið mun galopnast fyrir launafólki frá nýju aðildarríkjum EES ef frumvarp félagsmálaráðherra verður að veruleika.

Ályktunina er hægt að lesa með því að smella á meira

Ályktun um frjálst flæði launafólks 1. maí

Akranesi 26.apríl 2006

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslensk stjórnvöld og Alþingi Íslendinga að afnema alls ekki takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES eins og fyrirhugað er að gera samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi félagsmálaráðherra.

Aðalfundurinn telur  það ámælisvert að íslensk stjórnvöld hafi ekki látið gera úttekt eða rannsókn á því hvaða áhrif erlent vinnuafl hefur haft á íslenskan vinnumarkað áður en tekin er ákvörðun um það að galopna landið fyrir launafólki frá nýjum aðildarríkjum EES. 

Aðalfundurinn telur að því markaðlaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum sé stórlega ógnað ef það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi fer í gegn óbreytt.

Aðalfundur telur það einnig óskiljanlegt af hverju verið er að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli eins og fram kemur í fyrirliggjandi fumvarpi félagsmálaráðherra.  Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir rík skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og  hafa stéttarfélögin þar víðtækra hagsmuna að gæta.

Það verða kaldar kveðjur sem Alþingi Íslendinga sendir íslenskum launþegum á sjálfan baráttudag launafólks 1. maí nk. ef frumvarp félagsmálaráðherra verður samþykkt óbreytt.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslenska launþega að fylgjast með því hvernig þingmenn greiða fyrirliggjandi frumvarpi um frjálsa för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES atkvæði sitt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image