• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verulegrar gremju gætir hjá starfsmönnum Norðuráls Unnið við stækkun Norðuráls
29
Mar

Verulegrar gremju gætir hjá starfsmönnum Norðuráls

Eins fram kemur í Blaðinu í dag þá gætir verulegrar gremju hjá starfsmönnum Norðuráls með þá ákvörðun eigenda Norðuráls að greiða ekki svokallaðan startup-bónus eins og gert var þegar uppstart átti sér stað árið 1998 og einnig 2001.  Formönnum stéttarfélaganna sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls ásamt aðaltrúnaðarmanni var tilkynnt þessi ákvörðun eigenda fyrirtækisins á fundi sem var haldinn fimmtudaginn 23. mars sl.  Það var framkvæmdastjóri tæknisviðs og starfsmannastjóri Norðuráls sem kynntu þessa ákvörðun eigenda fyrirtækisins.

Í viðtali við Ragnar Guðmundsson  framkvæmdastjóra fjármála-og stjórnunarsviðs í Blaðinu í dag segir hann að málið sé byggt á misskilningi.  Ragnar segir að eigendur Norðuráls hafi ekki tekið ákvörðun ennþá hvort greiddur verði startup-bónus með sambærilegum hætti og gert var 1998 og 2001.  Einnig sagði Ragnar í viðtalinu að einhverjir sem sátu fundinn í síðustu viku hafi rangtúlkað það sem framkvæmdastjóri tæknisviðs hafi sagt.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að hér er ekki um neina mistúlkun að ræða í þessu máli.  Það kom hvell skýrt frá hjá  forsvarsmönnum Norðuráls sem sátu þennan fund 23. mars að eigendur Norðuráls ætluðu ekki að greiða startup-bónus.  Aðaltrúnaðarmaður Norðuráls sem sat umræddan fund lagði nákvæmlega sama skilning og formaður VLFA í orð forsvarsmanna Norðuráls þ.e. að eigendur Norðuráls myndu ekki greiða startup-bónus til starfsmanna.  Þannig að hér er ekki um neinn misskilning um að ræða af hálfu fulltrúa stéttarfélaganna í þessu máli.

Vissulega er það gleðiefni ef eigendur Norðuráls eiga eftir að taka ákvörðun í þessu máli og ef svo er þá hafa stjórnendur Norðuráls hér á landi misskilið eigendur Norðuráls í þessu máli.  Ekki fulltrúar stéttarfélaganna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vonast til að eigendum Norðuráls beri gæfa til að umbuna því frábæra starfsfólki sem það hefur í sinni þjónustu með veglegri bónusgreiðslu vegna þess gríðarlegs álags sem fylgt hefur umræddu uppstarti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image