• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Feb

Samningsforsendur eru brostnar ef ekki koma til lagfæringar á kjörum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði !

Formannafundur Starfsgreinasambandsins var haldinn í dag.  Það voru tvö mál sem helst voru til umræðu á fundinum.  Fyrra málið var um heimild Launanefndar sveitafélagana til hækkunar á lægstu launa  Síðara málið var um breytingar á lögum Alþýðusambandsins sem lýtur að reglugerðum sjúkrasjóða aðildarfélaga ASÍ.

Á fundinum voru formenn SGS almennt mjög ánægðir með þá ákvörðun Launanefndarinnar að heimila hækkun á launum þeirra sem lægstu hafa launin hjá sveitarfélögunum.  Það liggur hins vegar ekki fyrir hvort öll sveitarfélög muni nýta sér þessa heimild.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness upplýsti á fundinum að Akraneskaupstaður hafi nú þegar tekið ákvörðun um að fullnýta heimildir Launanefndarinnar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvatti sé hljóðs á fundinum og sagði það gríðarleg vonbrigði að Samtök atvinnulífsins skyldu hafna alfarið að fylgja að fordæmi Launanefndar sveitafélaga um hækkun lægstu launa. 

Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað sýnt framá að kjarasamningurinn sem gerður var við verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði 7. mars 2004 gaf langtum minna en aðrir kjarasamningar eða einungis 15,8% á samningstímanum.

Samanburður sem Ólafur Darri hagfræðingur ASÍ gerði á þeim kjarasamningum sem gerðir voru á tímabilinu mars 2004 til miðs árs 2005, sína svo ekki verður um villst hvernig verkafólk á almenna vinnumarkaðnum var skilið illilega eftir.  Samkvæmt samanburði hagfræðingsins kemur fram að kostnaðarmat margra kjarasamninga var á bilinu 20 og alveg uppí 37% þegar tekið hefur verið tillit til samningstíma samningana.  En eins og áður sagði þá  var kostnaðarmat kjarasamningsins á almenna markaðnum einungis 15,8%

 Þessa vegna skilur formaður Verkalýðsfélags Akraness ekki hvernig það gat gerst að fulltrúar ASÍ í forsendunefndinni um endurskoðun kjarasamninga, hafi ekki beitt sér fyrir sérstaklegri hækkun handa þeim sem taka laun eftir kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði, þegar endurskoðunin átti sér stað í desember.  Það virðist ekkert tillit hafa verið tekið til þess að verkafólk á almenna markaðinum fékk mun minna í kostnaðarhækkanir heldur en kjarasamningar hjá öðrum starfsstéttum. 

Forsendunefndin um endurskoðun kjarasamninga komust að þeirri niðurstöðu í desember 2005.  Að allir skildu fá það sama eða 26 þúsund í eingreiðslu og hækkun um 0,6% í janúar 2007.  Burt séð frá því hversu mikill kostnaðarmunur væri á milli kjarasamningana.  Þessi niðurstaða forsendunefndarinnar er að mati formanns félagsins fáránleg.

Það svo sorglegt að sjá hvernig almennt verkafólk hefur farið út úr sínum kjarasamningi að það verður vart með tárum tekið.

Kjarasamningur sem Starfsgreinasambandið gerði við Launanefnd sveitafélagana í maí 2005 gaf 24% á samningstímanum og núna hefur Launanefndin gefið sveitarfélögunum heimild til að hækka lægstu launin um allt að 12% til viðbótar. 

Á sama tíma hafna Samtök atvinnulífsins alfarið að fylgja að fordæmi Launanefndarinnar og hækka lægstu launin með sambærilegum hætti og sveitafélögin hafa heimild til. 

Á fundinum í dag lá fyrir ályktun þar sem krafist var að SA og ríkið beiti sér fyrir sambærilegum hækkunum til þeirra sem lægstu hafa launin.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði til við fundinn að bætt væri við ályktunina og var það samþykkt.  Viðbótin var eftirfarandi:

 "Það er mat fundarins að samningsforsendur kjarasamninga SGS við ríki og SA séu brostnar, ef ekki koma til hækkanir á hinum almenna vinnumarkaði með sambærilegum hætti".

 

Ef SA og ríkið munu ekki lagfæra laun þeirra sem lægstu hafa launin verða aðildarfélög innan Starfsgreinasambandsins að beita sér af fullum þunga fyrir því að kjarasamningum verði sagt upp þegar endurskoðun fer fram í desember.

Á morgun verður birtur hér á heimasíðunni samanburður á launum í sambærilegum störfum eftir því hvort unnið er hjá sveitafélögunum eða á hinum almenna vinnumarkaði.  Launamunurinn er nokkuð sláandi fyrir sambærileg störf. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image