• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 var afhent uppsagnarbréf í gær Aflaskipið Víkingur Ak 100
21
Jan

Skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 var afhent uppsagnarbréf í gær

Skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 var afhent uppsagnarbréf í gær.  En skipið mun taka loðnuvertíðina í ár ef einhver loðna finnst og að vertíðinni lokinni verður skipinu lagt alveg fram í janúar 2007.

 Verkalýðsfélag Akraness hefur haft áhyggjur af framtíðarskipan Víkings Ak og síldarbræðslunnar um all langa hríð.  En félagið fundaði með forsvarsmönnum HB Granda um þessi mál í ágúst í fyrra.  Á þeim fundi kom fram að ekki stæði til að breyta útgerðarfyrirkomulagi Víkings AK, nú hefur hins vegar annað komið á daginn. 

Vissulega hefur það ekki hjálpað til að aflasamdráttur á loðnu er gríðarlegur eins og allir vita og alls óvisst hvort einhver vertíð verður í ár.  Sjálfsagt er það ein skýringin á þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda.  Einnig liggur það líka fyrir að verkefni sem Víkingur Ak hefur verið með eins og síldveiðar á haustin hafa verið fluttar yfir á önnur skip fyrirtækisins að miklu leiti.

Verkalýðsfélag Akraness þætti fróðlegt að vita hversu mörg stöðugildi hafi verið hjá Haraldi Böðvarssyni fyrir sameiningu við Granda og hversu mörg þau eru nú.  Verkalýðsfélag Akraness hefur trú á að störfum tengdum HB Granda hafi fækkað umtalsvert hér á Akranesi eftir sameiningu þessa tveggja fyrirtækja. 

Í ár eru liðin 100 ár (1906) frá því að fyrirtækið Haraldur Böðvarsson var stofnað og verður því sárt að horfa upp á aflaskipið Víking AK bundið við bryggju megnið af árinu.  Aflaskipið Víkingur Ak hefur skilað eigendum Haraldar Böðvarssonar, skagamönnum og einnig þjóðarbúinu öllu, gríðarlegum tekjum í gegnum áratugina.

Uppsagnarbréf skipverja hljóðaði eftirfarandi: 

 

 Uppsagnarbréf

Sýnt þykir að ekki verði verkefni fyrir Víking Ak 100, skrásetningarnr.220, að lokinni loðnuvertíð fyrr en í ársbyrjun 2007.

Þér er því hér með sagt upp störfum frá og með móttöku þessa bréfs en gert er ráð fyrir óbreyttum útgerðaháttum út þessa loðnuvertíð.

Áhersla verður lögð á að útvega þér starf á einhverju af þeim skipum sem áfram verða í rekstri hjá félaginu hafir þú á því áhuga.

Undir uppsagnarbréfið skrifar Vilhjálmur Vilhjálmsson deildarstjóri HB Granda.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image