• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Frá því að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda hf hafa tapast hér á Akranesi á milli 55 og 65 störf á einu ári Frystihús HB Granda á Akranesi
25
Jan

Frá því að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda hf hafa tapast hér á Akranesi á milli 55 og 65 störf á einu ári

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að skoða á undanförnum dögum hvernig sameining Haraldar Böðvarssonar við Granda hefur komið út fyrir samfélagið hér á Akranesi.

Það er skemmst frá því að segja að það er skelfilegt að sjá hvernig Akurnesingar hafa farið út úr þessari sameiningu.   

Í lok árs 2004 eða rétt fyrir sameiningu voru 125 starfsmenn sem störfuðu við landvinnslu hjá HB Granda á Akranesi.  Í dag eru 80 starfsmenn sem starfa við landvinnsluna, sem er fækkun uppá 45 starfsmenn eða 31% á rétt rúmu ári.   Hafa skal það í huga að hér er bara verið að tala um landvinnslufólk. 

Sjómönnum hér á Akranesi hefur einnig fækkað vegna þessarar sameiningar.  Það voru 85 sjómenn sem voru í Verkalýðsfélagi Akraness og störfuðu hjá Haraldi Böðvarssyni fyrir sameiningu.  Í  dag eru 77 sjómenn og hefur  fækkað um 8 skipverja. 

Síðan verður einnig að hafa í huga að 11 skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 hefur nýverið verið sagt upp störfum.  Þegar búið verður að leggja Víkingi Ak þá hafa 19 sjómenn misst vinnuna hjá HB Granda frá sameiningu eða 22%

Rétt er að það komi fram að forsvarsmenn HB Granda leggja áherslu á að skipverjar á Víkingi Ak fá pláss á öðrum skipum hjá útgerðinni.  En ekkert er fast í hendi hvað það varðar.

Stöðugildum á skrifstofu félagsins hefur einnig fækkað eða sem nemur 4 stöðugildum.  Þar á meðal er störf þeirra bræðra Sturlaugs og Haraldar.

Þetta eru blákaldar staðreyndir um þá þróun sem átt hefur sér stað eftir að fyrirtækin sameinuðust.

Vissulega má segja að hluti af þessum samdrætti hér á Akranesi sé vegna aflasamdráttur og hagræðingar innan fyrirtækisins.  En klárlega skýrir það ekki allan þennan samdrátt sem orðin er hér á Akranesi. 

Það sem Verkalýðsfélag Akraness vill sjá er sanngirni á milli þeirra starfstöðva sem eru í eigu HB Granda.  En það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að við Akurnesingar höfum verið niðurlægðir í þessari sameiningu.

 Það verður ekki með tárum tekið hvernig samfélagið á Akranesi hefur farið út úr þessari sameiningu.  En fyrirtækið Haraldur Böðvarsson & co hefði orðið 100 ára 17. nóvember 2006

Nú verða allir að leggjast á eitt og reyna að koma í veg fyrir að fjöregg okkar skagamanna blæði endanlega út.  Við verðum að verja þann nýtingarrétt sem HB fjölskyldan og við skagamenn höfum áunnið okkur inn á síðustu 100 árum.  Við getum ekki horft aðgerðalaus á nýtingaréttin og einnig störfin okkar hverfa héðan í burtu eins og ekkert sé.  Gerum eitthvað !

Verkalýðsfélag Akraness er einnig að skoða svarið sem sjávarútvegsráðherra gerði við fyrirspurn Magnúsar þ Hafsteinssonar um landaðan afla hér á Akranesi.  Í því svari sést nokkuð vel hvernig fjarað hefur undan okkur hér á Akranesi hvað varðar þessa sameiningu.  En verulegur samdráttur er á lönduðum afla hér á Akranesi eftir að fyrirtækin sameinuðust.

Sem dæmi má nefna að 37.824 þús tonn var landað í bræðslu hér á Akranesi af Kolmuna á árinu 2004.  Árið 2005 var ekki einu kílói landað hér á skaganum.  Öllum kolmuna var landað á Vopnafirði eða öðrum höfnum fyrir austan.  Nánar verður fjallað um svar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Magnúsar hér á heimasíðunni fljótlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image