• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt fram kæru á hendur Spútnikbátum ehf Pólverji að störfum hjá Spútnikbátum
21
Jul

Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt fram kæru á hendur Spútnikbátum ehf

Rétt í þessu var formaður Verkalýðsfélags Akraness að leggja fram kæru á hendur fyrirtækinu Spútnikbátar ehf. hjá Sýslumanninum á Akranesi.  Kæran er vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002.  Hægt er að lesa alla kæruna með því að smella á meira.

Sýslumaðurinn á Akranesi

Stillholti 16-18

300 Akranesi 

Akranesi 20. júlí 2005

Efni: Kæra vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002

Fram hefur komið að 5 Pólverjar starfa samkvæmt svokölluðum ,,þjónustusamningi” hjá slippfyrirtækinu Spútnik Bátar ehf. kt. 570205-0990, að Bakkatúni 26, hér í bæ. Um starfsmenn sem sendir eru hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja til að veita þjónustu er fjallað í lögum nr. 54/2001.

Í lögum nr. 97/2002 er aftur á móti fjallað um það með hvaða hætti útlendingar geti komið til starfa til íslenskra fyrirtækja sem launþegar.  Samkvæmt afriti af samningi Spútnik Báta ehf. og M K Trans & Service verður að telja að umræddir starfsmenn séu launþegar Spútnik Báta ehf. og lúti því lögum nr. 97/2002 en komi ekki hingað til lands til að sinna þjónustu á vegum erlenda fyrirtækisins sbr. lög nr. 54/2002.

Ekki liggur fyrir atvinnuleyfi viðkomandi atvinnurekenda til að hafa nefnda Pólverja í vinnu, en samkvæmt 7. gr. c. liðar laga 97/2002, þarf m.a. „að liggja fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.”

Hið tilvitnaða ákvæði er m.a. ætlað að  koma í veg fyrir undirboð á íslenskum vinnumarkaði, en ekki verður betur séð af afriti meðfylgjandi samnings að hver umræddur starfsmaður hafi kr. 77.000,- í mánaðarlaun fyrir mikla vinnu.  Þessi launakjör brjóta jafnt í bága c-lið 1. mgr.  7. gr. laga nr. 97/2002 og 3. gr. laga nr. 54/2002.

Þegar af þeirri ástæðu ber að stöðva vinnu viðkomandi manna hjá umræddu fyrirtæki og er hér með skorað á yður að grípa til viðeigandi aðgerða gegn fyrirtækinu.

Þá má geta þess að samkvæmt 15 gr. nefndra laga um atvinnuréttindi útlendinga eru tæmandi taldir þeir útlendingar sem undanþágur eru gerðar um varðandi veitingu atvinnuleyfa, í allt að fjórar vikur, hér á landi. Ekki verður séð að nefndir Pólverjar falli undir undanþáguákvæði þessi.

F.h. Verkalýðsfélags Akraness. 

___________________________________
Vilhjálmur Birgisson, formaður.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image