• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Nov

Fundað með bankastjórum

Eins og flestir vita var eitt af meginverkefnum síðustu kjarasamninga að semja með þeim hætti að sköpuð yrðu skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta og hefur það sýnt sig að það er að raungerast. Verðbólgan var 6,6% þegar kjarasamningar voru undirritaðir og stýrivextir stóðu í 9,25% en núna er verðbólgan komin niður í 5,1% og stýrivextir í 8,5%. Vissulega eru vonbrigði að Seðlabankinn sé ekki búinn að lækka vexti umtalsvert meira en raun ber vitni en allir greiningaraðilar tala um að stýrivaxtalækkunarferli sé hafið af fullum þunga.

Það voru hinsvegar gríðarleg vonbrigði að sjá að bæði Íslandsbanki og Arion banki hafa hækkað verðtryggða vexti sína umtalsvert og nægir í þessu samhengi að nefna að Arion banki hefur á rúmum 60 dögum hækkað breytilega verðtryggða vexti um 1% og Íslandsbanki um 0,8%. Þetta gera þeir þrátt fyrir að verðbólga sé á hraðri niðurleið og stýrivextir hafi lækkað um 0,75%. Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi þessa ákvörðun viðskiptabankanna tveggja harðlega og fyrir helgina átti formaður í samskiptum við bankastjóra tveggja af viðskiptabönkunum þremur. Annan þeirra talaði hann við símleiðis en átti svo ásamt formanni Samtaka atvinnulífsins fund með forsvarsmönnum Landsbankans þar sem farið var yfir stöðuna. Það var ánægjulegt að á þeim fundi tilkynnti bankastjóri Landsbankans að bankinn hefði ekki í hyggju að hækka verðtryggða vexti. Það er alveg ljóst að það þarf að veita fjármálakerfinu kröftugt aðhald og kom fram í máli formanns við báða þessa bankastjóra að það myndi félagið gera nú sem hingað til. En það er æði margt sem bendir til þess að verðtrygging sé aðalorsakavaldur þess að við búum við tvöfalt eða jafnvel þrefalt hærra vaxtastig en þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Það er hinsvegar með ólíkindum að verða vitni að því að lífeyrissjóðirnir hafa verið að hækka verðtryggða vexti að undanförnu og nægir að nefna að Gildi lífeyrissjóður hækkaði vexti í október um 0,4% og Lífeyrissjóður verslunarmanna mun hækka þá um 0,2% 1. desember. Eitt er víst að ef viðskiptabankarnir þrír eiga í erfiðleikum með að útskýra og færa rök fyrir sinni vaxtahækkun þá geta lífeyrissjóðirnir á engan hátt réttlætt sínar hækkanir enda liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir eru að lána fé sem sjóðsfélagarnir leggja inn og þurfa þar af leiðandi ekki að fjármagna sig og eru einnig undanþegnir ýmsum gjöldum sem viðskiptabankarnir greiða. Þetta er algjörlega til skammar því það er mat formanns að lífeyrissjóðir eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera með hærri en 3,5% raunávöxtun á útlánum til sjóðsfélaga, einfaldlega vegna þess að það er það ávöxtunarviðmið sem sjóðirnir miða við. Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins þurfa og verða að ræða til að tryggja réttlát lánakjör til sjóðsfélaga og sporna við okurvöxtum fjármálakerfisins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image