• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
May

Aðalfundur VLFA

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær, miðvikudaginn 18. maí á Gamla kaupfélaginu. Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir helstu atriði í starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að félagið stendur gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega. 

Rekstrarafgangur samstæðunnar var 151 milljón og nemur eigið fé félagsins rétt tæpum 2 milljörðum. Formaður fór yfir kjarasamninga liðins árs og jafnframt yfir þau verkefni sem framundan eru en þar má nefna að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði eru lausir á þessu ári.  

Félagsmenn hafa verið afar duglegir að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður þeim upp á og sýnir öll tölfræði það. Sem dæmi má nefna að 1.269 manns fengu greiðslu úr sjúkrasjóði, 363 keyptu afsláttarkort og 302 fengu greidda menntastyrki. Samtals eru þetta um 70% félagsmanna og er það fyrir utan alla aðra þjónustu sem félagið veitir dag hvern. Það er einnig afar ánægjulegt að heyra að félagsmenn séu ánægðir og stoltir af félaginu sínu.  

Eins og alltaf þá er það regla stjórnar að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins og í ár var engin undantekning þar á. En vegna góðrar afkomu var heilsueflingarstyrkurinn hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. og heilsufarskoðunarstyrkurinn hækkaður úr 30.000 kr. í 35.000 kr. Einnig voru dánarbætur hækkaðar úr 360.000 kr. í 400.000 kr. og hámark sjúkradagpeninga úr 500.000 kr. í 550.000 kr.  

Ýmislegt jákvætt er framundan hvað varðar uppbyggingu á félagssvæði VLFA enda atvinnulíf að glæðast aftur eftir þau slæmu áhrif sem Covid hafði. Það sama má segja um hefðir innan félagsins sem ekki hefur verið hægt að halda í af sömu ástæðum en í ár var loks hægt að halda kröfugöngu og hátíðarhöld vegna 1. maí og í ár verður hægt að fara í ferðalag með eldri félagsmenn sem alltaf er mikilvægur partur af starfinu. Það má því segja að bjart sé framundan og staða félagsins mjög góð.  

Að fundi loknum bauð félagið fundargestum upp á ljúfengt lambakjöt með öllu tilheyrandi að hætti Gamla Kaupfélagsins.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image