• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

VLFA hefur innheimt rúmar 10 milljónir á árinu vegna kjarasamningsbrota

Það sem er af þessu ári hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt vegna kjarasamningsbrota og ágreinings um túlkun kjarasamninga rúmlega 10 milljónir króna.

Það má segja að árið sem nú er að líða hafi kjarasamningsbrot verið með minnsta móti miðað við mörg önnur ár. En réttindavarðveisla fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð verið stór partur af starfsemi skrifstofunnar, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá hefur félagið innheimt vegna vangreiddra launa og ágreinings vegna túlkunar á ráðningarsamningum og kjarasamningum rétt rúman einn milljarð frá árinu 2004.

Í þessu samhengi er ekki verið að taka tillit til margfeldisáhrifa sem sum réttindamálin hafa síðan leitt af sér til framtíðar. Stærsta einstaka málið sem félagið hefur innheimt fyrir sína félagsmenn er mál sem vannst fyrir dómstólum gegn Hval á síðasta ári en það skilaði um 100 milljónum.

Það er morgunljóst að mikilvægi stéttarfélaga við að varðveita kjarasamningsleg réttindi sinna félagsmanna er gríðarlegt enda leikurinn á milli launamannsins og atvinnurekandans afar ójafn og er formaður nokkuð viss um að nánast ekkert af þessum málum hefðu fallið starfsmönnum í hag nema með aðkomu stéttarfélagsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image