• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Nov

Dómur fallinn í Félagsdómi um samningsumboð um lífeyrismál

Í fyrradag féll dómur í Félagsdómi í máli sem Verkalýðsfélag Akraness höfðaði gegn Samtökum atvinnulífsins, en SA óskaði eftir að Alþýðusamband Íslands myndi gerast réttargæsluaðili í málinu.

Málið laut að kröfu um að viðurkennt sé af Félagsdómi að Verkalýðsfélag Akraness sé með samningsumboð til þess að semja um ráðstöfun framlags til lífeyrissjóða í kjarasamningi VLFA við Elkem Ísland á Grundartanga.

Í öðru lagi krafðist VLFA fyrir Félagsdómi að viðurkennt verði iðgjald í lífeyrissjóð fyrir félagsmenn VLFA verði 12%. Starfsmaður greiði 4% og 8% koma frá atvinnurekenda. Til viðbótar 8% mótframlagi fyrirtækisins í lífeyrissjóð koma 3,5% sem félagsmenn VLFA ákveða hvort þeir ráðstafa í samtrygginguna í sínum lífeyrissjóði, tilgreinda séreign eða í frjálsan viðbótarsparnað.

Niðurstaða Félagsdóms var með þeim hætti að Verkalýðsfélag Akraness náði sínu fram en þó ekki með þeim hætti sem félagið lagði upp með. Enda voru Samtök atvinnulífsins sýknuð af kröfu félagsins að svo stöddu eins og sagt er í dómsorði.

Þetta þýðir að VLFA og Elkem munu þurfa að gera nýtt samkomulag um rétt starfsmanna til að ráðstafa 3,5% af 15,5% framlagi í lífeyrissjóðina að eigin vali þ.e.a.s í samtrygginguna, tilgreinda séreign eða frjálsan viðbótarsparnað.

Formaður félagsins hefur sett sig nú þegar í samband við forstjóra Elkem Ísland með því að markmiði að klára nýtt samkomulag en það samkomulag mun heimila starfsmönnum áðurnefnda ráðstöfun á 3,5%. Samkvæmda dómi Félagsdóms myndi það samkomulag mega koma til framkvæmda 1. nóvember á næsta ári eða á sama tíma og kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út.  Því má segja að eina sem VLFA náði ekki fram í þessum dómi var að umrætt val á ráðstöfun tæki strax gildi en heimilt er að gera nýtt samkomulag sem kveður á um að þessi heimild taki gildi 1. nóvember á næsta ári eins og áður sagði.

Það er mikilvægt að það komi skýrt fram að VLFA og Elkem Ísland voru sammála um að semja með þeim hætti að starfsmenn fyrirtækisins hefðu aukið val til að ráðstafa sínum kjarasamningsbundnum iðgjöldum í lífeyrissjóð með ofangreindum hætti.

Hins vegar voru það ASÍ og Samtök atvinnulífsins sem komu í veg fyrir að sá samningur sem VLFA gerði við forsvarsmenn Elkem virkjaðist og því var það sameiginleg niðurstaða að skjóta málinu til Félagsdóms.

Það var þyngra en tárum taki að sjá að ASÍ og Samtök atvinnulífsins skulu hafa tekið höndum saman um að leggjast gegn því að samningsrétturinn um lífeyrismál væru ekki hjá stéttarfélögunum heldur hjá ASÍ og SA og vísuðu í samning frá árinu 1996 og árinu 1995 um lífeyrismál.

Ekki bara það heldur hélt lögmaður ASÍ því fram fyrir Félagsdómi að starfsmenn Elkem og annarra starfsmanna sem hafa sjálfstæðan kjarasamning við stóriðjur væru búnir að afsala sér rétti til að semja um iðgjöld til lífeyrissjóða nánast til eilífðar.

Þetta var svo ótrúlegur málflutningur því í öllum lögum þar sem kveðið er á um stéttarfélög er skýrt kveðið á um að það eru þau sem fara með samningsumboð fyrir sína félagsmenn til að semja um kaup og kjör þeirra og iðgjöld til lífeyrissjóða eru svo sannarlega hluti af starfskjörum launafólks.

Því miður hélt formaður að Félagsdómur myndi dæma eftir lögunum en í þessu máli var greinilegt að Félagsdómur sló skjaldborg um „kerfið“ og það mætti ekki rugga lífeyriskerfinu og gekk dómur mjög langt í að gera það.

Rétt er þó að geta þess að dómsorðið er afar undarlegt enda segir í því að SA og ASÍ séu sýknuð „að svo stöddu“.

Málið snérist um það að SA og ASÍ sögðust vera með samningsumboðið vegna lífeyrismála hjá sér en kjarasamningur starfsmanna Elkem Ísland er sjálfstæður kjarasamningur og VLFA fer alfarið með samningsumboðið í þeirri kjarasamningsgerð og hefur alla tíð gert. Hefur t.d. aldrei falið öðrum umboð til samningsgerðar fyrir sína félagsmenn í stóriðjusamningunum.

Þrátt fyrir þessa staðreynd og að kjarasamningurinn sé sjálfstæður þá vildi Félagsdómur meina að kaflinn um lífeyrismál á almenna vinnumarkaðnum frá 2016 gilti fyrir starfsmenn Elkem. En þeir komu hvergi nærri þeim kjarasamningi hvorki fengu kynningu á honum né kusu um hann samt þótti Félagsdómi eðlilegt að segja að sjálfstæður kjarasamningur félagsins við Elkem gilti ekki um lífeyrismál.

Þótt vissulega séu vonbrigði að málið hafi ekki unnist að fullu þá er þetta viss sigur eina sem gerist er að starfsmenn verða að bíða til 1. nóvember 2022 með að ráðstafa þessum 3,5% að eigin vild. Einnig liggur fyrir að VLFA hefur tekið af allan vafa í náinni framtíð að ASÍ fer alls ekki með samningsumboð um lífeyrismál fyrir félagið heldur mun félagið alfarið sjá um þau mál sjálft.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image