• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Jun

Sjómannadagurinn 2021

Allt frá árinu 1938 eða í 83 ár hefur sjómannadagurinn verið haldinn hátíðlegur vítt og breitt um landið. Formaður vill fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum sem tilheyra sjómannadeild VLFA sem og sjómönnum öllum innilega til hamingju með daginn.

Það er óhætt að segja að sjómannadagurinn á Akranesi sé nánast að verða að engu enda kannski ekki skrýtið því núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur lagt veiðar og vinnslu sjávarafurða hér á Akranesi í rúst.

Akranes eða Skipaskagi eins og kaupstaðurinn hefur oft verið kallaður, byggði sína afkomu um áratugaskeið á veiðum og vinnslu á sjávarafurðum en hér voru starfrækt fjölmörg frystihús og skreiðar og saltfiskvinnsla sem upp undir 70% bæjarbúa byggðu lífsafkomu sína á. Sem dæmi þá var það fyrir örfáum árum sem Akranesbær var þriðja stærsta vertíðarstöð landsins en bara hjá fyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni & co störfuðu árið 2004, 350 manns og greiddi fyrirtækið núvirt upp undir 5 milljarða í laun. Nú er allt farið, þökk sé handónýtu fyrirkomulagi við stjórnfiskveiða að þakka.

Á Akranesi er reynt að halda örlítið í sjómannadaginn til að heiðra sjómenn, dagurinn byrjaði á minningarorðum við minningarreit um týnda sjómenn í kirkjugarðinum hér á Akranesi, en þar var lagður blómsveigur til minningar um þá sjómenn sem ekki hafa fundist og hvíla hina votu gröf.

Að lokinni minningarstundinni var haldinn guðsþjónusta í Akraneskirkju sem var virkilega falleg, en þar var íslenskum sjómönnum þakkað þeirra frábæra framlag til gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið. Að lokinni guðsþjónustunni var haldið að Akratorgi þar sem blómsveigur var lagður að styttu sjómannsins til minningar um látna sjómenn.

Það er mikilvægt fyrir almenning í þessu landi að þakka og sýna íslenskum sjómönnum virðingu fyrir þeirra störf sem eru oft á tíðum hættuleg og við krefjandi aðstæður, en eitt er víst að íslenskt samfélag væri ekki jafn sterkt ef ekki væri fyrir þá gjaldeyrisöflun sem sjómenn skapa dag hvern.

Sjómenn og fjölskyldur þeirra enn og aftur innilega til hamingju með daginn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image