• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Júní

Fundað í kjaradeilu Norðuráls hjá ríkissáttasemjara

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vísuðu stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls, deilu sinni til ríkissáttasemjara í síðustu viku. En þar á undan höfðu samningsaðilar fundað sextán sinnum saman og má því segja að þetta hafi verið sautjándi samningafundur deiluaðila.

Það sem útaf stendur í þessari deilu er atriði sem lúta að launalið samningsins en Verkalýðsfélag Akraness og VR eru samstiga í því að samið verði við Norðurál í anda þeirra krónutöluhækkana eins og gert var í lífskjarasamningum. En fyrir Kórónufaraldurinn var krafa stéttarfélaganna að samið yrði með sambærilegum hætti og gert var í síðasta samningi þ.e.a.s með tengingu við launavísitöluna.

En á fundinum í morgun rakti formaður VLFA ítarlega ástæðu þess að félagið vill ekki tengja launabreytingar sinna félagsmanna við launavísitöluna en aðalástæðan liggur í því að íslenskt samfélag er að sigla inní eitt mesta efnahagssamdrátt síðustu 100 ára að mati Seðlabankans með tilheyrandi atvinnuleysi og kaupmáttarrýrnun launafólks næstu 2 til 3 ára.

Einnig liggur fyrir að þróun hækkunar á kauptöxtum jafnt á almenna vinnumarkaðnum sem og hjá ríki og sveitarfélögum  og öðrum viðmiðunarhópum frá árinu 2014 til 2020 hefur sýnt að launahækkanir taxtakerfisins virðast skila sér illa inní hækkun launavísitölunnar.

Því miður hafa forsvarsmenn Norðuráls til þessa hafnað að semja í anda lífskjarasamningsins og er það miður. En á fundinum í morgun kom skýrt fram að VLFA og VR ætla ekki, vilja ekki og geta ekki samið með öðrum hætti en eins og gert var í lífskjarasamningum. Við vitum hvað þær launabreytingar munu skila okkar félagsmönnum en höfum ekki hugmynd um hvernig launavísitalan mun þróast á næstu vikum, mánuðum eða árum vegna þessa ástands sem uppi er á alþjóðavísu vegna Covid 19.

Formaður átti góðan fund með félagsmönnum sínum í gær en fundurinn var haldinn í Bíóhöllinni og fékk formaður skýrt umboð frá sínum félagsmönnum að fylgja fast eftir að samið yrði með sambærilegum hætti og gert var í lífskjarasamningum.

Næsti fundur hjá ríkissáttasemjara verður miðvikudaginn 10. júní 2020.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image