• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Maí

Fimmtándi samningafundur með forsvarsmönnum Norðuráls haldinn í gær

Fjórtándi samningafundur Verkalýðsfélags Akraness með forsvarsmönnum Norðuráls var haldinn 11. maí eftir langt hlé vegna Covid-19. Á þessum fundi greindi formaður VLFA forsvarsmönnum Norðuráls frá því að aðalkrafa félagsins er laut að því að launabreytingar í samningum myndu taka breytingum eftir launavísitölunni væri ekki lengur uppi á borðinu af hálfu VLFA.

Ástæðan er þríþætt. Í fyrsta lagi liggur fyrir að framundan er eitt mesta samdráttarskeið á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku efnahagslífi í hartnær 100 ár og því afar ólíklegt að launavísitalan muni skila starfsmönnum miklum launabreytingum á næstu tveimur til þremur árum.

Í öðru lagi þá hefur formaður VLFA skoðað launabreytingar hjá fjölmörgum hópum sem taka laun eftir launatöxtum eins og starfsmenn Norðuráls gera. Í þeirri skoðun kemur fram að launataxtar t.d. á hinum almenna vinnumarkaði hafa hækkað mun meira en launavísitalan hefur gert t.d. frá 2014 til 2019. Ástæðan er einföld, áhersla hefur verið á að hækka taxtalaun í kjarasamningum almennt meira en önnur laun og svo virðist vera sem launahækkanir á launatöxtum skili sér frekar illa inn í mælingu á launavísitölunni.

Í þriðja lagi þá liggur fyrir að lífskjarasamningurinn þar sem samið var um fastar krónutöluhækkanir hjá öllum þeim sem taka laun eftir launatöxtum var mjög góður og myndu slíkar hækkanir skila starfsmönnum mjög góðum launahækkunum á næstu þremur árum.

Þær launataxtahækkanir sem samið var um í lífskjarasamningum voru eftirfarandi:

  1. 1. janúar 2020 24.000 kr.
  2. 1. janúar 2021 24.000 kr.
  3. 1. janúar 2022 25.000 kr.

Þessar hækkanir myndu því skila verkamönnum hjá Norðuráli yfir 7% launahækkun fyrir hvert ár, sem klárlega yrði langt umfram það sem launavísitalan mun skila enda erum við að sigla inn í eitt mesta samdráttarskeið á íslenskum vinnumarkaði eins og áður sagði.

Þessum upplýsingum kom formaður á framfæri á þessum fjórtánda samningafundi. Í gær var síðan fimmtándi samningafundurinn haldinn með forsvarsmönnum Norðuráls og á ótrúlegan hátt var ekki annað að skilja á forsvarsmönnum Norðuráls og forsvarsmanni Samtaka atvinnulífsins en að hækkunum samkvæmt lífskjarasamningum hafi algerlega verið hafnað. En næsti fundur verður 25. maí eða á næsta mánudag og þá munu forsvarsmenn Norðuráls leggja fram tillögu að hækkun á launaliðnum.

Það er alveg morgunljóst að VLFA ætlar ekki, getur ekki og vill ekki semja um minna en þær launabreytingar sem lífskjarasamningurinn gaf og því er allt eins líklegt að deilunni verði vísað strax á næsta mánudag til ríkissáttasemjara ef tilboð Norðuráls verður á skjön við það sem aðrir hópar hafa verið að semja um þar sem lífskjarasamningurinn hefur verið hafður til hliðsjónar.

VLFA mun ekki gefa neitt eftir í þessum viðræðum enda engin ástæða til enda gengur rekstur fyrirtækisins blessunarlega bara nokkuð vel miðað við krefjandi markaðsaðstæður.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image