• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Dec

Akraneskaupstaður hefur þurft að leiðrétta laun fyrir á þriðja tug milljóna.

Það er aldrei of oft ítrekað mikilvægi þess að launafólk fari ætíð vel og vandlega yfir launaseðla sem og kjör og önnur réttindi sem kveðið er á um í kjarasamningum.

En nýlega átti formaður samtal við matráð sem starfar á einum af leikskólum Akraneskaupstaðar en í þessu samtali áttaði formaður VLFA sig á því að starfshlutfall viðkomandi starfsmanns hafði verið vanreiknað um 6%. En það leiðir til þess að mánaðarlaun viðkomandi starfsmanns eru vanreiknuð að mati formanns VLFA um tæpar 20.000 kr. á mánuði.

En þetta vanreiknaða starfshlutfall var búið að eiga sér stað í 5 ár og væntanlega mun leiðréttingin eiga sér stað þessi 5 ár aftur í tímann og því ljóst að um umtalsverða fjárhæð er um að ræða.

Þetta er ekki það eina sem Akraneskaupstaður hefur þurft að leiðrétta hvað laun starfsmanna sinna varðar en nýlega kom í ljós að starfsmenn í mötuneytum voru ekki að fá greitt eins og grein 3.1.6 kveður á um, en í þeirri grein segir orðrétt: „Vegna takmörkunar á matartíma skal telja viðveru starfsmanna 30 mín styttri en ella hefði verið“

Þessar 30 mínútna stytting vegna takmörkunar á matartíma hafði ekki verið framkvæmd sem skyldi og þurfti Akraneskaupstaður að leiðrétta laun allra sem starfa í mötuneytum á leikskólum bæjarins og nam sú leiðrétting um eða yfir 20 milljónum króna með launatengdum gjöldum.

Þessum leiðréttingum er síður en svo lokið því eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness dómsmál fyrir Félagsdómi nýverið er laut að eingreiðslu tímakaupsfólks og er formanni kunnugt um að byrjað sé að reikna út þá leiðréttingu en ljóst er að sú leiðrétting mun nema hundruðum þúsunda. En dómur félagsdóms gerði það einnig að verkum að í ljós kom að sveitafélög vítt og breitt um landið eru að reikna hlutfall af orlofs og desemberuppbótum vitlaust út en þau hafa einungis tekið tillit til dagvinnustunda en ekki alls vinnuframlags tímakaupsfólks.

Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness gert þá skýlausu kröfu að orlof-og desemberuppbætur verði leiðréttar 4 ár aftur í tímann hjá tímakaupsfólki en um verulegar fjárhæðir er hér um að ræða.

Allt þetta sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að vera í öflugum stéttarfélögum sem verja réttindi sinna félagsmanna og víla ekki fyrir sér að fara með mál fyrir dómstóla leiki einhver vafa á að verið sé að brjóta á réttindum þeirra.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image