• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Dec

Fundað með samninganefnd Sambands íslenskra sveitafélaga í morgun

Í morgun var haldinn samningafundur með Sambandi íslenskra sveitafélaga en eins og allir vita þá hefur samningsgerðin dregist með ótrúlegum hætti í alltof langan tíma en það eru  rúmir 8 mánuðir frá því að síðasti samningur rann út.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kom því enn og aftur á framfæri við samninganefnd sambandsins að þessi vinnubrögð væru algerlega fyrir neðan allar hellur enda ekki boðlegt að launafólk þurfi að bíða eftir launabreytingum og nýjum samningi í 8 mánuði.

Formaður fór yfir með Samninganefnd Sambands íslenskra sveitafélaga að aðilar vinnumarkaðarins hafa á tyllidögum talað um að mikilvægt sé að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð við kjarasamningsgerð þar sem ætíð verði reynt að láta nýjan kjarasamning taka við af þeim eldri. Meira segja hefur verð blásið til kostnaðarsamra námskeiða af hálfu ríkissáttasemjara til að skerpa á þessum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. En árangurinn er ekki meiri en svo að nú eru liðnir 8 mánuðir frá því eldri samningur rann út eins og áður sagði.

Formaður skilur ekki þessi vinnubrögð einfaldlega vegna þess að lífskjarasamningurinn mótaði rammann utan um kjarasamning við sveitafélögin en kröfugerð félagsins byggist  99%  á því sem kemur í lífkjarasamningum.

Nú kom það í ljós á þessum fundi að Samband íslenskra sveitafélaga leggur til að svokallaður hagvaxtarauki verði ekki inni heldur einhver launaþróunartrygging en þessari hugmynd hafnaði VLFA algerlega enda byggist lífskjarasamningurinn m.a. á hagvaxtaraukanum.

Það kom skýrt fram í máli formanns að alls ekki eigi að vera að flækja styttingu vinnuvikunnar en fyrir liggur að sambandið er tilbúið að stytta vinnuvikuna um 13 mínútur á dag en VLFA vill að starfsmenn fái að velja í samráði við stjórnendur hvernig þessar 13 mínútur séu teknar út.   T.d. leggur VLFA mikla áherslu á að starfsmenn geti safnað þessum mínútum upp yfir árið og tekið út í heilu lagi. En uppsöfnun á þessum 13 mínútum yfir árið ætti að geta gefið 7 auka frídaga á ári.

Einnig fór formaður yfir réttindi tímakaupsfólks en eftir málið sem Verkalýðsfélag Akraness vann fyrir Félagsdómi þá liggur algerlega fyrir að óheimilt er að mismuna tímakaupsfólki eins og gert hefur verið á liðnum árum og afar auðvelt er að lagfæra það í kjarasamningum. Enda á tímakaupsfólk að njóta sambærilegra réttinda og fastráðið fólk en að sjálfsögðu í samræmi við starfshlutfall sem fundið er út með öllu unnu vinnuframlagi hjá tímakaupsfólki.

Einnig var deilt um gildistíma samningsins en það kom skýrt fram hjá formanni að 1. Desember gengur ekki upp enda mun skynsamlegra að miða við 1. Ágúst vegna þess að búið er að leiðrétta laun aftur til þess tíma.

Formaður fór skýrt yfir það að langlundargeð félagsins og starfsmanna Akraneskaupstaðar er algerlega að þrotum komið í þessum viðræðum og kom skýrt fram í máli formanns við samninganefnd sveitafélaga að ef ekki tekst að semja í byrjun næsta árs mun félagið grípa til aðgerða til að knýja fram nýjan kjarasamning til halda sínum félagsmönnum.  Formaður krafðist þess að drög að nýjum samningi myndi liggja fyrir á næsta fundi sem verður 10. janúar 2020.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image