• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Nóv

Ótrúlegur vitnisburður forsvarsmanns Sambands íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdóm. Málið laut að því að í kjarasamningi sem gerður var 2016 samþykkt að verða við ósk Sambands íslenskra sveitafélaga að láta kjarasamninginn gilda ekki til 1. Janúar 2019 heldur til 31. mars 2019 eða nánar tilgetið að lengja samninginn um þrjá mánuði.

Til að bæta starfsmönnum upp það tekjutap sem hlaust við þessa þriggja mánaða lengingu á samningum var starfsmönnum boðin 42.500 króna eingreiðsla fyrir 100% starf sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019, en orðrétt hljóðaði ákvæðið svona:

„Grein 1.2. hljóði svo: Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfsíma og starfshlutfall í desember“

Það ótrúlega gerist síðan að þegar eingreiðslan er greidd út þá greiða Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit hana ekki út til svokallaðs tímakaupsfólks og þegar VLFA kallar eftir skýringum frá þessum aðilum hverju það sætti að greiðsla hafi ekki borist til tímakaupsfólksvar

svarið sem félagið fékk var að þetta væru tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki þennan rétt, sem var vægast sagt undarleg niðurstaða.

Félagið hafði samband við Samband íslenskra sveitafélaga og kallaði eftir útskýringum á þessum tilmælum til sveitafélaga og eftir nokkra fundi þar sem sambandið óskaði eftir að fá að skoða þessa ákvörðun sína betur var niðurstaðan að hún skildi standa óhögguð. Rök þeirra voru m.a. þau að Reykjavíkurborg og Ríkið hafi ekki greitt þessa eingreiðslu til tímakaupsfólks.

Þegar þessi niðurstaða frá sambandinu lá orðið fyrir var ekkert annað en að stefna málinu fyrir Félagsdóm enda stenst það ekki nokkra skoðun að ekki hafi átt að bætta tímakaupsfólki upp tekjutapið vegna lengingar á samningum um þrjá mánuði eins og öðrum starfsmönnum sveitafélaganna. Enda var tekjutap þessara einstaklinga það sama og hjá öðrum starfsmönnum eða nánar tilgetið eftir starfstíma og starfshlutfalli.

Það er hins vegar rétt að upplýsa það að eftir málflutninginn í gær tjáði Árni Stefán Jónsson fyrrverandi formaður SFR og núverandi i formaður Sameyki  formanni VLFA að það væri ekki rétt að ríkið hafi ekki greitt umrædda eingreiðslu til tímakaupsfólks eins og Samband íslenskra sveitafélaga héldu fram. Þetta voru reyndar ekki einu ósannindin sem ullu uppúr formanni Launanefndar sveitafélaga fyrir félagsdómi í gær.

Hún hélt því t.d. fram fyrir félagsdómi í gær að starfsmenn á tímakaupi hjá sveitafélögunum ættu ekki rétt á orlofs-og desemberuppbótum og slíkar uppbætur hafi ekki verið greiddar út til tímakaupsfólks hjá sveitafélögunum. Þessi ummæli eru algjör ósannindi og með ólíkindum að formaður launanefndar skuli hafa vogað sér að halda slíku fram.

Hún viðurkenndi þó fyrir dómi að sveitafélögin hafi verið að misnota ákvæði um tímakaupsfólk í kjarasamningum enda fjölmörg dæmi um að tímakaupsfólk sé að vinna vinnustundir sem skila allt að 80% starfshlutfalli, en orðrétt segir í þetta í samningum: „Starfsmann skal ráða á mánaðarlaun/starfshlutfall ef reglubundin vinnuskylda hans er 20% á mánuði eða meira.

Það er ljóst eftir þennan málflutning í gær fyrir félagdómi að erfitt er að treysta forsvarsmönnum sveitafélagsins sem víla ekki fyrir sér að segja ósatt eiðsvarnir fyrir dómi. Formaður trúir ekki öðru en að Félagsdómur sendi Sambandi íslenskra sveitafélaga skýr skilaboð í dómsorði sínu enda ömurlegt að sjá hvernig brotið hefur verið gróflega á réttindum tímakaupsfólks í kjarasamningi við Samband íslenskra sveitafélaga.

Dómsniðurstöðu er að vænta eftir eina til tvær vikur og er formaður verulega bjartsýnn á VLFA vinni þetta mál enda allt þetta mál Sambandi íslenskra sveitafélaga til skammar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image