• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Okt

Verkalýðsfélag Akraness með tvö mál fyrir félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdóm vegna ágreinings um rétt þeirra sem starfa sem svokallað tímakaupsfólk hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit. En ágreiningurinn laut að eingreiðslu sem samið var í síðasta kjarasamningi og kom til greiðslu í febrúar en á óskiljanlegan hátt túlkaði Samband íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki rétt að umræddri eingreiðslu.

Hinn 3. febrúar 2016 var skrifað undir samkomulag um breytingu og framlengingu kjarasamnings. Með samkomulaginu var ákveðið að framlengja samninginn þannig að hann gilti frá 1. janúar til 31. mars 2019 .

„Grein 1.2. hljóði svo: Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfsíma og starfshlutfall í desember“

Eins og sjá má á þessu þá kom þessi eingreiðsla til vegna þess að verið var að lengja samninginn um 3 mánuði og var þarna verið að greiða fyrir þá lengingu. Það er því óskiljanlegt að Samband íslenskra sveitafélaga skuli halda einu einustu mínútu að ekki  þurfi að bæta tímakaupsfólki fyrir þessa framlengingu á samningum. Þegar það lá fyrir að SÍS ætlaði ekki að greiða tímakaupsfólki eingreiðsluna, þá var ekkert annað í stöðunni en að stefna þeim fyrir félagsdóm.

Það er morgunljóst að umtalsverðir hagsmunir eru hér undir því þessi dómur mun hafa mikið fordæmisgildi fyrir allt tímakaupsfólk sem starfar hjá sveitafélögum um land allt. Málsflutningur í þessu máli verður miðvikudaginn 6. nóvember.

Hitt málið sem Verkalýðsfélag Akraness er með fyrir Félagsdómi er gegn Norðuráli en það lýtur að svokölluðum vikulegum frídegi eða með öðrum orðum ef starfsmenn vinna meira en 7 daga samfellt þá ber að greiða þeim 8 tíma í frítökurétt eins og Hæstiréttur hefur kveðið á um

Málflutningur gegn Norðuráli verður þriðjudaginn 12. nóvember, en á þessu sést að Verkalýðsfélag Akraness hefur í nægu snúast þessa dagana við að verja réttindi sinna félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image