• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Mar

Hæstiréttur-trúnaðarmenn njóta lakari réttarstöðu!

Í gær fell dómur í Hæstarétti í máli félagsins gegn Skaganum 3x. Málið laut að starfsmanni sem var trúnaðarmaður og átti inni lágmarksréttindi sem lutu að lágmarkshvíldartímum og svokölluðum vikulegum frídegi.

En Verkalýðsfélag Akraness hafði unnið málið fyrir Landsrétti þar sem starfsmanninum voru dæmdar rúmlega ein milljón vegna þessara lágmarkshvíldar og vikulega frídags.

Eftir dóm Landsréttar óskuðu forsvarsmenn Skagans 3x. eftir því að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar á grundvelli þess að trúnaðarmaðurinn hafi sýnt af sér tómlæti við fylgjast með sínum réttindum. Vildi Skaginn 3x  meina að um fordæmisgildi gæti verið um að ræða þar sem um trúnaðarmann væri um að ræða og hann ætti að hafa mun betri stöðu til að átta sig á að verið væri að „brjóta“ á honum en hinn almenni starfsmaður.

Á óskiljanlegan hátt samþykkti Hæstiréttur þessa áfrýjun og er skemmst frá því að semja að meirihluti Hæstaréttar tók undir það með Skaganum 3x að trúnaðarmenn hefðu ekki sömu réttindi til að sækja rétt sinn ef verið væri að brjóta á réttindum þeirra eins og almennir starfsmenn.

Með öðrum orðum þá tapaði VLFA málinu á þessum forsendum og Hæstiréttur lét það algerlega ótalið að bæði Héraðsdómur og Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ráðningarsamningur starfsmanna væru ólöglegir enda var skýrt kveðið á í þeim að starfsmenn ættu ekki rétt að greiðslu á hvíldartímum því þeir væru á jafnaðarkaupi!

Einn dómari fyrir Hæstarétti skilaði séráliti sem er algerlega í anda dóms Landsréttar en í þessu séráliti er tekið undir allar kröfur Verkalýðsfélags Akraness. Í þessu séráliti segir m.a orðrétt:

„Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ver ráðningarsamningur þessi í andstöðu við 7. Gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og 1. Gr. nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda“  Þetta þýðir á mannamáli eins og áður hefur komið fram að ráðningarsamningurinn sem starfsmaðurinn var með var ólöglegur!

Einnig segir í þessu séráliti orðrétt:

Hvíli á áfrýjanda sem atvinnurekenda sú afdráttarlausa skylda að virða þau lágmarksréttindi til hvíldar starfsmanna sinna sem sérstaklega eru bundin í lög, sbr. 53. Og 54. Gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Eru réttindi þessi jafnframt tíunduð og útfærð í viðkomandi kjarasamningi, en þar segi meðal annars í 5. mgr. Greinar 2.8.2 kjarasamnings um uppgjör þeirra: "Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma“

Á þessu sést að dómur Hæstaréttar er kolrangur enda er hér um lágmarksréttindi sem á að gera upp við starfslok og krafa á hendur Skaganum 3x var gerð um leið og starfslok áttu sér stað og því fráleitt að sýkna Skagann 3x á grundvelli þess að starfsmaðurinn var trúnaðarmaður og hann hafi sýnt af sér tómlæti.

Þessi dómur er alvarleg aðför að trúnaðarmannakerfi verkalýðshreyfingarinnar, enda ljóst með þessum dómi að trúnaðarmenn njóta ekki sömu réttinda og almennir starfsmenn fyrir það eitt að gegna stöðu trúnaðarmanns.

Það er sorglegt að stór og öflug fyrirtæki skuli komast upp með að brjóta á réttindum starfsmanna sinna og komast hjá greiðslu á grundvelli þess að viðkomandi sýndi af sér tómlæti sem trúnaðarmaður.  Ömurleg skilaboð sem Hæstiréttur sendir íslensku launafólki með þessum dómi!

Það er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þessum dómi í komandi kjarasamningum þannig að tryggt verði að trúnaðarmenn njóti ekki lakara réttarstöðu en almennir starfsmenn fyrir það eitt að gegna stöðu trúnaðarmanns.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image