• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Mar

Fimmtánda árangurslausa samningafundi hjá ríkissáttasemjara lokið.

Rétt i þessu lauk fimmtánda árangurslausa samningafundi Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR, LÍV , Framsýnar og Eflingar-stéttarfélags við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara.

Það er orðið dálítið dapurlegt að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins skuli enn og aftur víkja sér undan því að leggja tölur á launaliðnum á borðið gagnvart áðurnefndum stéttarfélögum í ljósi þess að nú eru liðnir þrír mánuðir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út.

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins bera það nú fyrir sig ítrekað að ekki séu forsendur til að leggja fram tölur hvað launaliðinn varðar vegna þeirra óvissu sem uppi er vegna WOW air.

Stéttarfélögin gera sér algerlega grein fyrir þeirri stöðu sem uppi er varðandi WOW air en sú óvissa hefur verið uppi um allanga hríð og á því ekki að koma neinum á óvart. Hugur formanna stéttarfélaganna vegna þessara óvissu sem ríkir um atvinnuöryggi starfsmanna er hjá starfsmönnum WOW air og starfsmönnum sem starfa hjá fyrirtækjum sem eru að þjónusta flugfélagið.

Það vekur athygli formanna áðurnefndra stéttarfélaga að sú sviðsmynd sem forsvarsmenn SA draga upp ef WOW air fer í þrot endurspeglar alls ekki þá sviðsmynd sem t.d. Björgólf­ur Jó­hanns­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Icelanda­ir, sagði í sam­tali við mbl.is. En orðrétt sagði hann:

Það er orðið ljóst að WOW air er orðið helm­ing­ur­inn af því sem að var þannig að áhrif­in eru kom­in fram. Ég velti því fyr­ir mér hvort verið sé að mála skratt­ann á vegg­inn í þessu sam­bandi,“

Formaður VLFA ítrekar að vissulega verður það skellur fyrir starfsfólkið ef það missir lífsviðurværi sitt vegna þess að WOW air fari í þrot og hugur okkar verður að sjálfsögðu hjá þeim ef til þess kemur en það liggur fyrir að um tímabundið áfall verður um að ræða fyrir efnahagslífið í heild sinni.

Rétt er líka að geta þess að formaður VLFA sagði á fundinum í morgun að hugur hans væri líka hjá íslenskum heimilum því ef þessar sviðmyndir væru réttar þá mættu íslensk heimili eiga von á því að verðtryggðar skuldir þeirra myndu hækka á skömmum tíma um allt að 60 milljarða.

Þetta sýndi hverslags skaðvaldur íslensk verðtrygging er fyrir almenning og heimili, sem endurspeglast í því að ef eitt fjólublátt lítið flugfélag fer í þrot þá geti verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um allt að 60 milljarða vegna falls íslensku krónunnar.

Það er algjörlega fráleitt hjá forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að halda kjaraviðræðum tugþúsunda launamanna í gíslingu vegna þeirra óvissu, óvissu sem launafólk ber ekki nokkra ábyrgð á og vegna tímabundina áhrifa sem hlytist af gjaldþroti fyrirtækisins.

Rétt er að geta þess að næsti fundur hefur verið boðaður á morgun klukkan 14:00 hjá ríkissáttasemjara

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image