• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Mar

Fjórtánda samningafundi hjá ríkissáttasemjara lokið

Rétt i þessu lauk fjórtánda samningafundi Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR, LÍV og Eflingar-stéttarfélags við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara.

Það er óhætt að segja að afar lítið hafi komið út úr þessum samningafundi annað en það að áðurnefnd stéttarfélög hafa ítrekað óskað eftir að SA leggi fram tölu í launaliðnum til að hægt sé að meta hvort viðræðugrundvöllur sé til áframhaldandi samningaviðræðna.

En Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað vikið sér undan því að leggja fram tölur í launaliðnum og núna telja forsvarsmenn SA að sú óvissa sem uppi er hjá flugfélaginu WOW air geri það að verkum að þeir treysta sér ekki til að leggja neitt fram í þeim efnum fyrr en þeirri óvissu hafi verið eytt.

Það er rétt að geta þess að áðurnefnd stéttarfélög gera alls ekki lítið úr þeirri óvissu sem uppi er hvað varðar WOW air, enda liggur fyrir að óvissa er um störf þúsunda starfsmanna fyrirtækisins, sem eru margir í einhverjum af þeim stéttarfélögum sem nú eru í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Það er einnig rétt að geta þess að forsvarsmenn stéttarfélagana hafa áhyggjur af því að ef WOW air lifir þetta ekki af þá muni verðbólgan geta farið af stað og félögin spyrja hvernig á að tryggja að verðtryggðar skuldir heimilanna aukist ekki um t.d. 34 milljarða ef verðbólgan eykst t.d. um 2% vegna falls WOW air?  Eða á bara að senda þannig reikning enn og aftur á heimilin sem bera ekki nokkra ábyrgð á rekstri viðkomandi flugfélags? 

Hins vegar liggur fyrir að það þarf að ganga frá kjarasamningi og það verkefni fer ekkert frá samningsaðilum, en erfið staða einstakra fyrirtækja á ekkert með að raska þeirri staðreynd. En í ljósi óvissunnar sem nú er uppi hvað WOW air varðar var ákveðið að fresta viðræðum til 10 i fyrramálið, en stéttarfélögin ítrekuðu mikilvægi þess að SA myndi leggja fram hugmyndir að launaliðnum á fundinum á morgun.

Einnig ítrekuðu félögin enn og aftur á fundinum í morgun að stéttarfélögin hafna með öllu þeim vinnutímabreytingum sem uppi hafa verið enda klárt mál að þær muni leiða til kjaraskerðingar hjá afar stórum hópi okkar félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image