• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Mar

Afhverju eru ekki viðræður við Samtök atvinnulífsins?

Það er þyngra en tárum taki að ekkert hafi þokast í samkomulagsátt í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness,  Verkalýðsfélagi Grindavíkur, VR og Eflingu stéttarfélags í ljósi þess að nú er að verða liðnir tveir og hálfur mánuður frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út.

Það er einnig rétt að geta þess að það eru að verða liðnir fimm mánuðir frá því að þessi stéttarfélög afhentu Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína, kröfugerð sem byggist á því að auka verulega ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á lægstu launatöxtunum í samfélaginu.

Þessi stéttarfélög hafa ætíð litið á að hægt væri að auka ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna með þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda, enda er allt samfélagið á Íslandi sammála að lagfæra verði kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er eins og áður sagði þyngra en tárum taki í ljósi þess að einungis 8 dagar eru þar til verkföll hjá Eflingu og VR hefjast og ekkert samtal á sér stað. En margir spyrja sig af hverju er ekkert samtal að eiga sér stað við áðurnefnd stéttarfélög.

Í því ljósi er gríðarlega mikilvægt að almenningur og atvinnurekendur vítt og breitt um landið viti að ástæða þess að ekkert samtal er að eiga sér stað á milli þessara félaga er krafa Samtaka atvinnulífsins um róttækar breytingar sem SA vill gera á íslenskum vinnumarkaði. Breytingar sem lúta að t.d. að því að lengja dagvinnutímabilið um tvo tíma á dag og breyta deilitölu í vinnutímanum sem leiðir til lægri yfirvinnuprósentu og einnig að taka upp svokallað eftirvinnuálag.

Öllum þessum atriðum hafa áðurnefnd stéttarfélög ítrekað hafnað í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og hafa meira segja látið bóka það hjá ríkissáttasemjara að þessum hugmyndum sé alfarið hafnað. Þrátt fyrir það byrja fulltrúar Samtaka atvinnulífsins alltaf á því að ræða þessar hugmyndir aftur og aftur þrátt fyrir skýlausa höfnun félaganna á þessum hugmyndum.

Eftir að stéttarfélögin fjögur höfnuðu þessum hugmyndum enn og aftur ákváðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins að hætta að ræða við áðurnefnd stéttarfélög og hafa því einhent sér í að ræða við Starfsgreinasamband Íslands, Iðnaðarmenn og Landssamband verslunarmanna og hafa fundað nánast alla daga hjá ríkissáttasemjara í rúmar tvær vikur.

Eftir upplýsingum sem Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindarvíkur, VR og Eflingar hafa aflað sér þá eru þessar vinnustundarbreytingar að einhverju leyti til umræðu hjá þeim félögum sem eru að ræða við Samtök atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Eins og áður sagði þá kemur það ekki til greina að fara í viðræður um þessar róttæku breytingar á vinnufyrirkomulagi á íslenskum vinnumarkaði í þessum kjarasamningum, enda kemur alls ekki til greina að íslenskt verkafólk kaupi að hluta sínar launahækkanir sjálft í gegnum þessar breytingar t.d. með tveggja tíma lengingu á dagvinnutímabilinu sem myndi leiða til þess að vaktaálagstímar vaktavinnufólks fækki með tilheyrandi tekjuskerðingu. Þetta er galin hugmynd sem þessi félög munu aldrei taka þátt í.

Enn og aftur er mikilvægt að almenningur, félagsmenn okkar og líka atvinnurekendur átti sig á því að ástæða þess að viðræður eru ekki að eiga sér stað á milli okkar er þessi botnlausa krafa Samtakanna um að við föllumst á þessar breytingar.

Ég hef tekið Þátt í kjarasamningsgerð í 14 ár og hef aldrei áður lent í því að atvinnurekendur komi aftur og aftur með kröfur að borðinu sem hefur verið hafnað af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, en það hafa fulltrúar SA ítrekað gert í þessum viðræðum.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, VR og Efling stéttarfélag eru svo sannarlega tilbúið að setjast að samningsborði og leysa þessa deilu enda fullur samningsvilji til staðar. En það verður alls ekki gert með afar kostum Samtaka atvinnulífsins um róttækar breytingar á vinnumarkaðnum sem byggjast á því að launafólk kaupi sínar launahækkanir dýru verði!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image