• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Dec

Verkalýðsfélag Akraness mun hvergi hvika í máli sínu gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni á félagið í nokkuð harðri deilu við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamnings sem félagið á við sambandið vegna starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað. Rétt er að upplýsa að deilan byggist ekki á þeim launabreytingum sem félaginu stendur til boða af hálfu sambandsins enda eru þær launabreytingar innan væntinga og í samræmi við þær launahækkanir sem um hefur verið samið gagnvart verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði.

Deilan snýst um að það er skilyrðislaus krafa af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga að í inngangi samningsins sé vitnað í rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október síðastliðnum, svokallað SALEK samkomulag, og það verði látið fylgja með sem fylgiskjal með samningnum. Það er mat stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness og lögmanna félagsins að innihald þessa rammasamkomulags sé skýrt brot á samningsfrelsi stéttarfélaganna og 74. grein stjórnarskrár Íslands. Enda byggist þetta SALEK samkomulag upp á að taka og skerða samningsrétt íslenskra stéttarfélaga illilega.

Á fjölmennum félagsfundi starfsmanna Akraneskaupstaðar var SALEK samkomulaginu alfarið hafnað vegna þess að starfsmenn telja sig ekki hafa lagalega heimild til að takmarka samningsfrelsi annarra samninganefnda innan félagsins né heldur að afsala forsenduákvæðum í öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á íslenskum vinnumarkaði eins og kveðið er á um í umræddu rammasamkomulagi. Þessu til viðbótar er það mat Verkalýðsfélags Akraness að þjóðhagsráð sem á að setja á laggirnar eftir árið 2018 eins og fram kemur í rammasamkomulaginu muni takmarka og skerða samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga svo mikið að slíkt standist ekki skoðun gagnvart lögum um samningsfrelsi stéttarfélaganna og því ekki hægt að samþykkja að umrætt rammasamkomulag fylgi með sem viðhengi við kjarasamning VLFA við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Í fréttum í dag segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, að samninganefnd sveitarfélaganna viti ekki um önnur séttarfélög en Verkalýðsfélag Akraness sem séu á móti SALEK samkomulaginu. Það má vel vera að forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi ekki vitneskju um andstöðu gegn þessu samkomulagi innan verkalýðshreyfingarinnar en formaður VLFA fullyrðir að til séu formenn innan verkalýðshreyfingarinnar sem séu á móti þessu samkomulagi þó slíkt hafi ekki birst með afgerandi hætti á opinberum vettvangi.

En grundvallaratriðið er að Samband íslenskra sveitarfélaga getur ekki gert þá kröfu á félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað að þeir skrifi undir samning þar sem búið er að hengja SALEK samkomulagið við kjarasamninginn vegna þeirrar bláköldu staðreyndar að yfirgnæfandi líkur eru á að slíkt stangist á við lög og stjórnarskrá Íslands. Félagsmenn VLFA vilja vera löghlýðnir og því er þessum gjörningi algjörlega hafnað. Hinsvegar vekur það forundran félagsmanna VLFA að sambandið skuli gera þá kröfu að félagið dragi mál til baka sem það er með vegna SALEK samkomulagsins fyrir Félagsdómi og það er æði margt sem bendir til þess að sambandið vilji ekki fá efnislega niðurstöðu fyrir Félagsdómi um hvort umrætt rammasamkomulag stangist á við lög um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskrá Íslands. 

VLFA mun hvergi hvika í þessari baráttu. Félagið vill fá niðurstöðu fyrir félagsdómi, efnislega niðurstöðu, og vonast til þess að sambandið muni ekki reyna lagaklæki, meðal annars með því að beita frávísunum og öðru slíku til að forðast þá niðurstöðu. Það er ekkert mál að skrifa undir samning án þessa SALEK samkomulags en það eru lágmarksréttindi launafólks að þetta samkomulag fái mun ítarlegri kynningu og kosið verði um það sjálfstætt en ekki samhliða launabreytingum þó aðalmálið sé að fá efnislega niðurstöðu fyrir Félagsdómi um hvort verið sé að brjóta á réttindum íslensks launafólks.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image