• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Dec

Samið við Faxaflóahafnir vegna hliðgæslumanna á Grundartanga

Verklýðsfélag Akraness gekk frá fyrirtækjasamningi við Faxaflóahafnir þann 4. desember síðastliðinn vegna starfsmanna sem starfa í hliðgæslu á Grundartangasvæðinu. Hlutverk hliðgæslumanna á Grundartangasvæðinu er að vakta svæðið og sjá um skráningu allra gáma sem fara inn á svæðið frá stóriðjufyrirtækjunum á Grundartanga, það er að segja Norðuráli og Elkem Ísland.

Þessi samningur gildir frá 6 maí 2015 til 31. desember 2018 og er því afturvirkur. Það mun þýða að starfsmenn munu fá greiðslu vegna afturvirkninnar sem nemur um eða yfir 200.000 kr. Launataxtar hækka um 25.000 frá 6. maí síðastliðnum og svo mun koma 6% hækkun á launatöflu 1. júní 2016. Árið 2017 mun koma 4,5% hækkun auk breytinga á álagsþrepum í stað aldursþrepa. 2018 mun launatafla hækka um 3% og 1. febrúar 2019 mun koma sérstök eingreiðsla að upphæð 49.000 kr. Þessu til viðbótar mun orlofsuppbót starfsmanna hækka um 0,2% af heildarlaunum starfsmanna sem ætti að geta gefið starfsmönnum fyrir utan hefðbundna orlofsuppbót hækkun sem nemur allt að 12.000 kr. á ári.

Samningurinn í heild sinni gefur tæp 29% en rétt er að geta þess að þeir sem gegna hliðvörslu á Grundartangasvæðinu eru fyrrverandi starfsmenn Securitas en Verkalýðsfélag Akraness samdi við Faxaflóahafnir í maí á þessu ári um að þeir myndu taka yfir starfsemina. Þetta hefur gert það að verkum að starfsmenn sem gegna hliðvörslu á Grundartangasvæðinu hafa hækkað í launum frá maí á þessu ári að meðtalinni þessari 25.000 kr. hækkun sem nú er að koma um allt að 175.000 kr. á mánuði og er það verulega góð kjarabót fyrir þá sem þar starfa. Heildarlaun starfsmanna eru komin yfir 500.000 kr. á mánuði fyrir 182 tíma vaktavinnu og er Verkalýðsfélag Akraness nokkuð stolt af því að hafa náð að lagfæra kjör þeirra sem gegna hliðgæslunni jafnmikið og raun ber vitni um. En barátta fyrir bættum kjörum félagsmanna, henni lýkur aldrei.

Hinsvegar er morgunljóst að ef svokallað SALEK samkomulag aðila vinnumarkaðarins hefði verið orðið að veruleika þá hefði ekki verið möguleiki að lagfæra kjör starfsmanna í hliðgæslu á Grundartangasvæðinu með þeim hætti sem hér hefur verið lýst að ofan. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að láta SALEK samkomulagið ekki verða að veruleika enda mun það skerða frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna illilega og rýra möguleika stéttarfélaganna til að sækja kjarabætur til handa íslensku verkafólki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image