• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

Nýtingarbónus í Elkem Ísland lagfærður um 0,6%

Á síðasta föstudag fundaði formaður félagsins með mannauðsstjóra og fjármálastjóra Elkem Ísland vegna yfirferðar Verkalýðsfélags Akraness á kjarasamningi sem félagið gerði við Elkem á árinu 2014. Í þeim kjarasamningi var gerð breyting á bónusi starfsmanna þar sem tekinn var upp nýr nýtingarbónus en í einni greininni var kveðið á um að þegar starfsmenn hefðu náð 80% hlutfalli af því sem hann getur gefið í heildina skyldi hann hækkaður úr 2,4% upp í 3% eða sem nemur 0,6%. Við yfirferð félagsins á samningnum kom í ljós að 80% hlutfall af þessum bónus hafði náðst í febrúar á þessu ári en fyrirtækið var ekki sammála útreikningi félagsins og á þeirri forsendu var boðað til þessa fundar.

Það er skemmst frá því að segja að eftir að formaður Verkalýðsfélags Akraness hafði farið yfir með fjármálastjóranum og mannauðsstjóranum á hvaða göngum og forsendum félagið hefði komist að þeirri niðurstöðu að 80% markinu hafi verið náð í febrúar, þá sáu þeir að Verkalýðsfélag Akraness hafði rétt fyrir sér í þessu máli. Það þýðir að leiðrétting á bónusnum mun koma til framkvæmdar í janúar en við þessa hækkun á bónusnum mun leiðrétting koma til starfsmanna sem nemur ca. 0,41% og getur þessi leiðrétting numið um eða yfir 3 milljónum króna í heildina. Einnig var Verkalýðsfélag Akraness búið að ganga frá samkomulagi við forsvarsmenn Elkem um að það kæmu tvær eingreiðslur á samningstímanum. Sú fyrri kom í október og nam hún 50.000 kr. á hvern starfsmann og svo mun önnur eingreiðsla koma í janúar sem nemur einnig 50.000 kr. Kjarasamningurinn sem gerður var hefur reynst starfsmönnum nokkuð góður því félagið gerði líka samning um nýjan tjónabónus sem hefur verið að skila starfsmönnum góðum ávinningi eða umtalsvert meiri en reiknað var með í upphafi en hann hefur skilað hverjum starfsmanni að meðaltali 9.000 kr. á mánuði eða sem nemur 54.000 kr. á 6 mánaða tímabili. Þegar samningurinn var gerður var reiknað með að tjónabónusinn myndi gefa um 4.000 kr. að jafnaði á mánuði þannig að blessunarlega hefur hann verið að skila meira en reiknað var með, báðum aðilum til hagsbóta.

Eins og áður sagði hefur þessi samningur sem gerður var við Elkem Ísland verið nokkuð góður og í raun og veru farið fram úr þeim væntingum sem menn höfðu til samningsins á sínum tíma en það er ljóst að hann er umtalsvert innihaldsríkari en kjarasamningar sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði. Hinsvegar óttast formaður það að ef svokallað SALEK samkomulag verður að veruleika þá muni þessum aðilum sem að því standa takast að eyðileggja slík sóknarfæri því í SALEK samkomulaginu er kveðið á um að stofna skuli sérstakt þjóðhagsráð sem muni ákvarða allar launabreytingar og að öllum stéttarfélögum verði skylt að semja innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð mun ákveða. Ef slíkt verður að veruleika mun það hafa gríðarlega mikil skaðleg áhrif fyrir þá starfsmenn sem starfa hjá sterkum og öflugum fyrirtækjum og ekki bara það heldur mun það bitna illilega á til dæmis Akraneskaupstað sem hefur notið góðs af umfram launahækkunum í stóriðjunum í formi útsvarstekna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image